Snæfellingar fóru með 20 stiga sigur af hólmi í kvöld er þeir unnu Haukanna nokkuð sannfærandi 77-97 í Schenkerhöllinni. Snæfellingar voru með þrjá menn sem skoruðu yfir 20 stig en Austin Magnus Bracey var með 25 stig og þeir Sigurður Á. Þorvaldsson og Christopher Woods rétt á eftir með 23 stig hvor. Haukarnir skutu sig hins vegar í kaf en þeir voru með einkar skelfilega 6% skotnýtingu fyrir utan þriggjastigalínuna eða 2 í 33 skottilraunum.
 
 
Leikurinn byrjaði mjög jafn en liðin skiptust á körfum. Snæfell voru hinsvegar að hitta mjög illa í byrjun og voru þeir 3 af 9 í skotum á fyrstu þremur mínútunum. Haukarnir komu sér í 7 stiga forystu, 16-9 eftir fjögurra mínútna leik en þá tók Snæfell 7-0 kafla á 90 sekúndum. Snæfell voru að fara illa með Haukanna í frákastabaráttunni og voru þeir komnir með 9 fráköst og þar af 6 sóknarfráköst gegn aðeins 5 heildarfráköstum hjá Haukum þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Snæfell fóru síðan að hitta miklu betur á öllum vígstöðum á meðan að Haukunum tókst aðeins að skora undir körfunni, voru með 1 af 7 í þriggjastigaskotum að loknum fyrsta leikhluta og átti það aðeins eftir að fara versnandi því lengra sem leið á leikinn. Haukar leiddu engu að síður að loknum fyrsta leikhlutanum 27-24. 
Alex Francis var Snæfellingum erfiður en hann var með 13 stig og 5 fráköst í leikhlutanum.
 
Annar leikhluti fór mjög hægt af stað. Liðin skoruðu aðeins 3 og 8 stig á fyrstu 5 mínútunum og skoruðu Snæfell 6 stig á milli 14. og 15. mínútu. En tvær “og-ein” karfa kom þeim yfir 30-32. Þá kom smá sóknarvillufarsi er þrjár sóknarvillur voru dæmdar á rétt rúmum 30 sekúndum. Haukar jöfnuðu leikinn í 36-36 en Snæfell kom þá með tvo snarpa þrista á loka mínútunni og komust 6 stigum yfir, 36-42. Staðan í hálfleik síðan 37-44.
Francis með 20 stig og 10 fráköst og hjá Snæfellingum var Sigurður Á. Þorvaldsson með 15 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar og Christopher Woods ekki langt á eftir með 14 stig og 7 fráköst. Haukar héldu áfram að vera afleitir fyrir aftan þriggjastigalínuna og bættu þeir við 11 skotum í tilraunadálkinn.
 
Fyrri hluti þriðja leikhluta var mjög jafn og skiptust liðin á körfum. En þá tók við 6-0 kafli hjá Haukunum þar sem þeir minnkuðu muninn í 55-56. Inga Þór Steinþórssyni leist ekkert á gang mála og tók leikhlé. Í pirringskasti sparkaði leikmaður Snæfells í stól og fékk bekkurinn því dæmda á sig tæknivillu. Það kom þó ekki að sök þar sem að Haukarnir misnotuðu vítaskotið að loknu leikhléinu. Snæfellingar peppuðust við það og áttu 5-0 kafla og komu sér í stöðuna 55-61. Þá tók Ívar Ásgrímsson leikhlé, en ekkert var stólasparkið Haukameginn. Leikhléið gerði hins vegar ekkert fyrir Haukanna og bættu Hólmarar bara í og leiddu með tólf stigum, 57-69, fyrir fjórða leikhlutann og var loka karfa Snæfellinga einstaklega glæsileg, Óli Ragnar Alexandersson stal boltanum og sendi nánast frá miðju á Snjólf Björnsson sem greip boltann í loftinu og lagði hann ofan í körfuna.
 
Fjórði leikhluti var jafn alveg þangað til á lokamínútunni og því breyttist lítið í leiknum. Emil Barja tókst að fá dæmda á sig tæknivillu fyrir kjaftbrúk þrátt fyrir að dæmt hafði verið tæknivilla á Óla Ragnar Alexandersson fyrir flopp í viðskiptum þeirra. En Haukum tókst ekki að stöðva sóknir Snæfellinga og bombuðu þristum í gríð og erg og því þæginlegur sigur fyrir Snæfell að leiks lokum.
 
 
 
Mynd/ Stefán Karel Torfason var flottur í leiknum í kvöld