Haukar tóku á móti Snæfelli í eina leik kvöldsins í Dominosdeild kvenna. Fjölmiðlar fjölmenntu á leikinn og því ber að fagna enda stórleikur. Leikurinn byrjaði af krafti en síðan fór að síga aðeins á fagurleikann enda jólin ekki búin fyrr en á morgun. Haukar byrjuðu betur en Snæfellingar fóru síðan í gang og komu sér inn í leikinn. Snæfell völtuðu síðan yfir Haukanna í öðrum leikhluta, 21-9, sem lagði grunninn að sigri þeirra. Haukastúlkur, eða öllu heldur Lele Hardy, áttu spretti þar sem að það leit út fyrir að þær væru að fara koma sér í takt við leikinn en Snæfell svöruðu öllum tilraunum þeirra og fóru með sanngjarnan 61-72 sigur af hólmi í kvöld.
 
Eins og áður sagði þá byrjaði leikurinn af krafti og var þar Lele Hardy fremst í flokki þar sem hún skoraði 9 stig fyrir Hauka er þær náðu 8 stiga forystu 13-5 á fyrstu fjóru mínútum leiksins. Snæfellingar hertu þá upp í vörninni sem hafði verið galopin og skilaði það þeim 8-3 kafla næstu mínúturnar. Leikhlutinn endaði síðan í stöðunni 19-15.
 
Gunnhildur Gunnarsdóttir jafnaði leikinn fyrir Hólmara 22-22 á 8-0 áhlaupi þeirra eftir að Haukar höfðu skorað fyrstu körfu leikhlutans. Stuttu síðar fóru Snæfellsstúlkur að brjóta mikið af sér á skömmum tíma og varð það til þess að lifnaði yfir Haukunum og komust þær í 26-22 eftir að Sólrún Inga Gísladóttir setti sinn annan þrist í leikhlutanum. Þá fóru Hólmara á flug og kafsigldu Haukastúlkurnar 14-3 til að enda leikhlutann og var Kristen Denise McCarthy sjóðandi og skoraði hún 11 af þessum 14 stigum en hún var með 21 stig í hálfleik. Sóknaraðgerðir Hauka voru ekki merkilegar og væru þær mjög seinar tilbaka enda flestar körfur Snæfellinga hraðaupphlaup.
 
Fyrri helmingur þriðja leikhluta einkenndist af mikilli varnarbaráttu hjá báðum liðum og litu meðal annars þrjú varin skot dagsins ljós snemma í leikhlutanum. Hardy setti tvo þrista á stuttum tíma og saxaði muninn niður í 3 stig, 45-48, en það lifði stutt því Hildur Sigurðardóttir svaraði strax aftur með þrist og þær bættu síðan bara við. Staðan 45-53 fyrir lokaleikhlutann.
 
Hildur var svakaleg í byrjun fjórða leikhluta og skoraði hún öll stig Snæfells á 7-2 kafla liðsins á fyrstu þremur mínútunum. Var hún meira að segja með 100% nýtingu að frátöldum vítaskotum sem hún brenndi af. Hardy neitaði að gefast upp og reyndi að vilja boltann ofan í hvað eftir annað. Henni tókst að minnka muninn í 6 stig, 56-62, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka en henni vantaði hjálp frá liðsfélögum sínum. Snæfell áttu ekki í erfiðleikum með að halda aftur af Hardy og auka muninn og unnu því sannfærandi 61-72.
 
Wedgie átti sér stað á sjöttu mínútu leiksins en undirritaður náði ekki mynd af því þar sem Kristen Denise McCarthy var svo snögg að losa boltann 🙁
 
 
 
Mynd/ Gunnhildur Gunnarsdóttir var fyrrum liðsfélögum sínum erfið viðureignar en hún var með 7 stolna bolta í kvöld.