Það má oft verða þannig að foreldrar barna í körfuboltanum eiga það til að stíga langt út fyrir sitt “verksvið” þegar kemur að iðkun og þjálfun barna þeirra í körfuboltanum. Þetta veit undirritaður því ég hef staðið í því að þjálfa yngri flokka.  Ég get viðurkennt að ég var heppinn með þá foreldra sem fylgdu þeim börnum sem ég þjálfaði en varð hinsvegar vitni af ýmsum öðrum foreldrum sem virtust vita þetta allt saman miklu betri en allir aðrir sem höfðu jafnvel stundað íþróttina frá því fyrstu Converse “Chucks” skórnir voru kynntir. 
Ég og einn félagi minn vorum einmitt að ræða þessi mál fyrir ekki svo löngu og þá sagði hann mér sögu af sjálfum sér þegar hann var gutti.  Hann sagðist hafa komið heim af æfingu, ca 8-9 ára gamall og var temmilega fúll með sinn hlut.  Komst ekki í liðið og þegar hann komst í lið þá fékk hann lítið að spila.  Faðir hans tók eftir því að stráksi var ekki líkt og venjulega þar sem þessi drengur var að öllu jöfnu á fullu í íþróttum og kátur að eðlisfari.  Félagi minn segir pabba gamla sína sögu og segist engan vegin skilja afstöðu þjálfarans.  Þá komu þessi gullnu orð frá pabba hans.  “Ertu búin að spurja þjálfarann afthverju þetta er svona?  Ég er alveg viss um það að þú verðir bara að spjalla við hann og spurja hann hvað þú þarft að bæta þig í til þess að fá að spila meira. Þú þarft bara að spíta í lófana drengur, það þýðir ekkert að fara í fýlu.”   Þettta gerði félagi minn og líkt og kaninn segir, “rest is history”   Í dag hefur þessi vinur minn unnið til allra þeirra verðlauna sem hægt er í körfuboltanum bæði sem leikmaður og þjálfari. 
 
Sem betur fer eru ennþá til þessir foreldrar sem hvetja sín börn af fullum krafti sama hvað gengur á.
 
Alan Stein er þjálfari vestra hafs í Bandaríkjunum og kappinn hefur augljóslega lent í öllum þeim mögulegu aðstæðum sem hægt er þegar kemur að foreldrum.  Myndband sem Alan gerði fyrir skömmu segir nánast allt sem þjálfarar vilja segja við foreldra þeirra barna sem stunda körfuboltann og íþróttir yfir höfuð.