Eftir langt jólahlé skelltu Skagamenn sér suður fyrir fjörð til að takast á við Valsmenn. Bæði lið vantaði lykilmenn í sín lið, Valsmenn Danero Thomas sem er hættur og Skagamenn Erlend Ottesen sem var veikur.
 
 
Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en þó voru Valsarar iðulega hænufeti á undan. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 23-22, heimamönnum í vil.
Þá settu gestirnir í annan gír og náðu yfirhöndinni sem þeir héldu til leiksloka. Vörnin var góð og ágætt flæði í sóknarleiknum. Skagamenn leiddu í hálfleik með 11 stigum, 48-37.
 
Ólíkt svo mörgum leikjum í vetur héldu Skagamenn sjó í þriðja leikhluta, þó síðari hálfleikurinn fari sennilega ekki í sögubækurnar fyrir frábæran sóknarleik. Báðum liðum gekk illa að skora en þó heimamönnum verr en gestunum. Leikhlutinn fór 13-9 fyrir ÍA og staðan því 46-61 fyrir lokaleikhlutann og litlar vísbendingar voru um að Valsmenn kæmu til baka.
 
Það gerðu þeir hins vegar svo um munaði. Þeir skiptu í svæðisvörn og pressuvörn allan völlinn sem Skagamenn virtust eiga í miklum erfiðleikum með. Svo virtist sem þeir væru að falla í þá gryfju að ætla að halda forskotinu, frekar en að auka við það. Valsmenn skoruðu til að mynda síðustu 8 stigin í leiknum.
 
Lokamínútan var æsispennandi. Valsmenn náðu þá í tvígang að stela boltanum framarlega á vellinum og minnkuðu meðal annars muninn í 3 stig þegar 9 sekúndur voru eftir. Eftir innkastið stálu þeir síðari boltanum af Áskeli Jónssyni, reyndu þriggja stiga skot sem Áskell varði glæsilega.
Torsóttur sigur var vel þeginn farangur heim hjá gestunum af Akranesi.
 
 
Staðan í 1. deild karla
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Höttur 10/2 20
2. FSu 8/3 16
3. Hamar 7/4 14
4. ÍA 5/4 10
5. Valur 5/6 10
6. Breiðablik 5/5 10
7. KFÍ 2/8 4
8. Þór Ak. 0/10 0