Þrátt fyrir hrakfarir kvöldsins tókst Snæfellingum að komast til Dalhúsa rétt fyrir leik, sem þurfti að seinka um 15 mínútur vegna þessa. Það var þó ekki laust við að ferðalagið hafi verið þeim dulítið erfitt. Ferðalangarnir voru andlega fjarverandi í bæði sókn og vörn í upphafi leiks.
 
Fjölnir komst snemma í 13-2 forystu í upphafi leiks. Snæfell var á hælunum í vörn og hittu ekkert í sókn en sprækir heimamenn refsuðu ítrekað fyrir það. Hægt og rólega fóru skotin þó að detta hjá Snæfelli og vörnin að herðast. Í lok fyrsta hluta leiddu heimamenn með þremur stigum, 19-16. 
 
Þrátt fyrir að Snæfell væri að komast aftur inn í leikinn voru nýliðarnir ekkert á þeim buxunum að gefa neitt eftir. Varnarleikur Fjölnis var lengst af til fyrirmyndar og allt annað að sjá liðið frá því sem var fyrir áramót. 
 
Heimamenn héldu mjóum mun allt þar til þriðja hluta lauk með þriggja stiga körfu frá nýjasta leikmanni Snæfells, Óla Ragnari sem samdi við Snæfell núna yfir hátíðarnar – spjaldið ofan í.
 
Ólafur Torfason fékk dæmda á sig afar grunsamlega óíþróttamannslega villu snemma í fjórða hluta og uppskáru Snæfellingar fjögur stig úr þeirri sókn. Ólafur bætti þó fyrir það með því að sækja fast að körfunni og setja stig á töfluna annað hvort með baráttu í teignum eða af vítalínunni. 
 
Snæfell hins vegar hafði Sigurð nokkurn Þorvaldsson innan sinna raða sem ætlaði ekki að fara án stiganna tveggja aftur í Hólminn. Sigurður setti niður hvert skotið af fætur öðru og jafnvel gaf nokkrar stoðsendingar þess á milli.
 
Naglann rak hann svo þéttingsfast í kistuna þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiknum og kom Snæfelli 4 stigum yfir með þriggja stiga skoti auk vítaskots eftir að Arnþór Guðmundsson braut á honum.
 
Þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum tók Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis leikhlé í stöðunni 84-87 fyrir Snæfelli. Fjölnir spilaði í kjölfarið myndarlega sókn þar sem Arnþór kom Ólafi Torfasyni í prýðisgott skotfæri á vinstri vængnum fyrir utan þriggja stigalínuna. Skotið hins vegar geigaði og möguleikar Fjölnis á að sigra runnu út í sandinn. Snæfell fór með sigur af hólmi, 84-88.
 
Chris Woods leiddi Snæfell með 24 stig og 13 fráköst. Sigurður Þorvaldsson hins vegar var maðurinn fyrir gestina með 23 stig og skaut alls 7/12 í leiknum, þar af 3/6 í þriggja stiga skotum. Fjölnir skipti stigaskorinu jafnt og skoruðu alls 5 leikmenn liðsins yfir 10 stig. Jonathan Mitchell, nýr erlendur leikmaður Fjölnis, var eitthvað ryðgaður í skotum sínum en hann skoraði þó 19 stig. Hann var virkur í varnarleiknum og mátti einnig sjá áherslubreytingar Fjölnis í sókninni þar sem boltanum var ítrekað dælt þar inn á Mitchell í stað þess að skjóta 30 sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna eins og einkenndi leik liðsins fyrir jól. Sindri Kárason bætti við 16 stigum og 9 fráköstum.
 
Snæfell hoppar upp í 6-7. sætið með Njarðvík og hafa nú lent 6 sinnum í jöfnum leikjum samkvæmt tölfræði KKÍ, mest allra liða. Þeir hafa sigrað 5 af þessum 6 leikjum. 
 
Snæfell reyndist sterkari og reynslumeiri á lokasprettinum og tryggði sér mikilvægan sigur fyrir baráttuna um sæti í úrslitakeppninni í vor, en Fjölnismenn geta gengið með höfuð hátt frá þessum leik. Það er töluverður munur á liðinu og ljóst að Mitchell og Emil eiga eftir að reynast liðinu vel.