Bakverðirnir Davíð Ásgeirsson og Sigtryggur Arnar Björnsson hafa undirritað nýja samninga við körfuknattleiksdeild Skallagríms. Samningar þeirra við félagið munu gilda út leiktímabilið 2016 og munu þessir öflugu leikmenn því spila með Skallagrími á næsta tímabili. Frá þessu er greint á vefsíðu Skallagríms.
 
Á heimasíðu Skallagríms segir ennfremur:
 
Að sögn Kristins Óskars Sigmundssonar formanns kkd. Skallagríms er mikil ánægja með að Arnar og Davíð verði áfram í Borgarnesi. Þar fari allt í senn góðir leikmenn, góðar fyrirmyndir og ljúfir piltar. Davíð sem verður 22 ára á árinu hefur leikið með meistaraflokki Skallagríms síðustu ár en hann er uppalinn Skallagrímsmaður. Á yfirstandandi leiktíð hefur Davíð skorað 8,5 stig að meðaltali í leik og tekið 3,2 fráköst. Sigtryggur Arnar, sem einnig verður 22 ára á árinu, er aftur á móti á spila sitt fyrsta tímabil í Borgarnesi og hefur hann stimplað sig rækilega til leiks. Sigtryggur Arnar er næst stigahæsti maður liðsins, með 17,4 stig, 4,7 fráköst og 4,5 stoðsendingar í leik. Þeir félagar verða að sjálfsögðu í eldlínunni í kvöld þegar Skallagrímsmenn halda suður með sjó til að leika gegn Keflvíkingum í Dominos deildinni.  
 
Mynd/ Ómar Örn – Davíð Ásgeirsson í leik með Skallagrím gegn ÍR fyrr á þessari leiktíð.