ÍR-ingar mættu Þór frá Þorlákshöfn í Hertz-hellinum í kvöld þar sem síðasti leikur 12. umferðar fór fram. Heimamenn fjölmenntu á leikinn og mynduðu prýðilega stemningu sem átti kannski þátt í því að ÍR-ingar byrjuðu betur í leiknum en staðan var 9-2 þegar 2 mínútur voru liðnar. ÍR-liðið var mun sprækara á upphafsmínútunum þar sem Trey Hampton fór hamförum undir körfunni. Hampton átti til að mynda þrjár troðslur í leikhlutanum en ein þeirra var sérstaklega glæsileg þar sem hann tróð yfir Grétar Erlendsson eftir slaka varnartilburði hans. Um miðbik leikhlutans ákváðu Þórsarar að vakna til lífsins og með Vincent Sanford í fararbroddi komust gestirnir yfir 19-21. Varnarleikur beggja liða var kannski ekki til að hrópa húrra fyrir en í staðinn fengu áhorfendur að sjá hraðan og skemmtilegan sóknarbolta þar sem liðin skiptust á að skora. Körfunum hélt áfram að rigna beggja megin vallarins og endaði leikhlutinn 28-30 fyrir gestina í stórskemmtilegum fjórðungi þar sem Sanford skoraði 14 stig og Hampton 13.
 
 
 
Sovic byrjaði annan leikhluta sterkt fyrir gestina og setti tvo þrista í röð. Hik kom á sóknarleik heimamanna en Þórsarar hættu hinsvegar ekki að skora og sigldu framúr þar sem staðan var 36-47 um miðjan leikhlutann. Sanford var algjörlega á eldi fyrir gestina, virtist skora að vild og kom gestunum 16 stigum yfir 38-54 þegar skammt var til hálfleiks. ÍR-ingar náðu þó með herkjum að minnka muninn í tólf stig fyrir hálfleik, 49-61 en Hampton var allt í öllu fyrir heimamenn og var kominn með 23 stig í hálfleik. Sanford bætti þó um betur en drengurinn setti 29 stig í fyrri hálfleik!
 
Sanford var hvergi nærri hættur að skora og hélt áfram að raða stigum á töfluna í þriðja leikhluta. Þórsarar komust fljótlega 17 stigum yfir og virtist róðurinn vera orðinn þungur fyrir heimamenn. Þeir voru þó ekki á því að gefast upp og með góðum körfum frá Kristjáni Pétri, Matta og Hampton náðu þeir að minnka muninn aftur í 10 stig, 65-75, þegar 5 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Þórsarar héldu þó í kringum 10 stiga forskoti út leikhlutann sem endaði 78-87. Þess má geta að heimamenn urði fyrir áfalli í leikhlutanum þar sem Sveinbjörn Claessen þurfti að yfirgefa völlinn með aðeins 4 stig eftir að hafa fengið sína fimmtu villu.
 
Fjórði leikhluti var hörkuspennandi. ÍR-ingar náðu að minnka muninn niður í 5 stig, 87-92 þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum. Þórsarar fundu þá taktinn aftur og voru komnir 12 stigum yfir, 91-103 þegar fjórar og hálf mínúta var til leiksloka. Margir hefðu kannski haldið að sigurinn væri í höfn hjá gestunum á þessum tímapunkti en með miklum karakter gerðu heimamenn annað áhlaup á gestina, skoruðu sex stig í röð og minnkuðu muninn, 97-103 þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. ÍR-ingar komust svo enn nær þegar þeir minnkuðu muninn niður í fjögur stig þegar tvær mínútur voru eftir. Lengra komust þeir þó ekki þar sem Baldur Ragnarsson setti risastóran þrist fyrir gestina stuttu seinna. Grétar Erlendsson kom svo Þórsurum 10 stigum yfir þegar mínúta var eftir og ljóst var að gestirnir færu með stigin tvö til Þorlákshafnar. Lokatölur 101-114 í bráðskemmtilegum leik þar sem sóknarleikurinn fékk að njóta sín.
 
Stigahæstur í liði ÍR-inga var Trey Hampton með 40 stig en hann átti algjörlega frábæran leik í kvöld. Næst á eftir honum var Matthías Orri en hann átti einnig stórgóðan leik þar sem hann skilaði 28 stigum, gaf 9 stoðsendingar og tók 5 fráköst.
 
Vincent Sanford var stigahæstur í liði Þórsara með 42 stig en hann var líkt og Hampton nær óstöðvandi. Emil Karel kom þar á eftir með 17 stig en þeir Grétar Ingi og Tómas Heiðar skoruðu 15 stig hvor.
 
Viðtal við Benedikt Guðmundsson þjálfara Þórs eftir leik
 
 
Umfjöllun/ ÞÖV