Tindastóll tók á móti KR í stórleik kvöldsins í Dominos deild karla í körfuknattleik. Það var ljóst frá upphafi að spennan og stemningin yrðu í aðalhlutverkum í leik kvöldsins. K-Tak á Sauðárkróki bauð heimamönnum og gestum frítt á leikinn og það skilaði sér í mesta áhorfendafjölda sem sést hefur í Síkinu í vetur.
 
 
 
Leikurinn fór af stað með gríðarlegri baráttu hjá báðum liðum, mistök á báða bóga og varnarleikurinn til fyrirmyndar. Helgi Freyr kom heimamönnum í 20-13 seint í fyrsta leikhluta með tveimur risaþristum en einbeitingarleysi heimamanna varð til þess að KR náði 4 síðustu stigum fjórðungsins og löguðu stöðuna í 20-17. KR-ingar héldu svo áfram sterkt í upphafi annars leikhluta og voru komnir í forystu 22-26 eftir rúmar 5 mínútur, náðu 14-4 kafla gegn heimamönnum á þessum tíma. Tindastólsmenn bitu í skjaldarrendur og náðu yfirhöndinni aftur og leiddu 36-32 í hálfleik.
 
 
Tindastóll byrjaði seinni hálfleikinn sterkt og komust í 43-36 eftir rúman hálfan leikhlutann. Það var áfram gríðarleg barátta inni á vellinum og kom það greinilega niður á stigaskorinu. KR minnkuðu muninn í 2 stig fljótlega en það var Tindastóll sem sýndi gríðarlegan karakter síðustu 4 mínútur leikhlutans og breyttu stöðunni úr 43-41 í 57-48 og Pétur Rúnar byrjaði fjórða leikhlutann með mögnuðum þrist og heimamenn allt í einu komnir í 12 stiga forystu, 60-48!
 
 
En KR-ingar sýndu úr hverju þeir eru gerðir og að það er engin tilviljun að þeir hafi unnið alla leiki sína hingað til í deildinni. Með mikilli seiglu náðu þeir að naga muninn niður og þegar Pavel setti niður góðan þrist og breytti stöðunni í 69-65 tók Israel Martin leikhlé. Barningurinn hélt áfram og mikið var um mistök á báða bóga enda spennustigið hátt. Þegar um 2 og hálf mínúta var eftir náði Björn Kristjáns að stela boltanum af Pétri Rúnari og jafna leikinn 76-76 og það var allt á suðupunkti í Síkinu.
 
Michael Craion kom KR yfir þegar tæp mínúta var eftir af leiknum eftir að hafa stolið boltanum af Pétri. En Tindastóll á í sínum röðum einn besta leikmann deildarinnar í Darrel Lewis og hann skoraði gríðarsterka körfu þegar 27 sekúndur lifðu af leiktímanum og fékk villu að auki sem hann setti niður. Stólarnir einu stigi yfir! Darri klikkaði á þrist úr horninu og KR-ingar sendu Pétur Rúnar á línuna þegar 9 sekúndur voru eftir. Pétur stóðst pressuna og setti bæði vítaskotin niður. KR-ingar æddu upp völlinn og tókst að opna fyrir Pavel en skotið klikkaði og Tindastóll varð fyrsta liðið til að leggja KR í vetur.
 
 
Finnur þjálfari KR sagði eftir leik að spennan hefði sett greinileg merki á leik sinna manna, sem og heimamanna. Allt of margir tapaðir boltar og slök nýting hafi gert það að verkum að leikurinn tapaðist. Hann óskaði Tindastól til hamingju með sigurinn og sagði leikinn hafa verið frábæra skemmtun tveggja góðra liða og KR hafi einfaldlega tapað fyrir sterku liði í kvöld.
 
Kári Marísson var að vonum stoltur af strákunum sínum eftir leikinn, frábær barátta og öflugur varnarleikur hafi skapað þennan sigur.
 
Myron Dempsey fór fyrir sínu liði í kvöld þó hann hafi oft spilað meira, skilaði 24 stigum. Lewis var næstur með 15 stig og Flake 11.
 
 
Helgi Már og Craion voru öflugastir gestanna en Pavel var langt frá sínu besta. Þórir G. Þorbjörnsson átti góða innkomu en KR-liðið tapaði boltanum alls 22 í leiknum og þar skildi á milli liðanna.
 
 
 
Mynd: Helgi Rafn í faðmi stuðningsmanna eftir frábæran sigur á KR
Mynd og umfjöllun/ Hjalti Árnason