Pavel Ermolinski leiddi sína menn til sigurs á ÍR í DHL höllinni í kvöld og ekki nóg með það heldur leiddi hann leikmenn liðsins í þremur helstu tölfræði þáttum leiksins; stig, stoðsendingar og fráköst með 24 stig, 18 fráköst og 14 stoðsendingar. Karfan.is náði tali af manni leiksins og einnig Matthías Orra, leikmann ÍR sem þurfti að lúta í gras í kvöld.
 
“ÍR spilaði bara mjög vel. Þeir áttu í raun sigurinn meira skilið,” sagði Pavel eftir leikinn. “Það eru eðlileg viðbrögð hjá liði sem er með bakið upp við vegginn að bíta frá sér. Við eigum hins vegar menn eins og Helga og Brynjar sem kunna að setja þessi stóru skot niður. Þeir björguðu okkur í lokin. Svo var þetta bara dísilvélarsigur í framlengingunum.”
 
Matthías var að vonum vonsvikinn með tapið í kvöld. “Getum bara kennt okkur sjálfum um,” sagði Matthías. “Svekkjandi að tapa niður svona forskoti i venjulegum leiktíma og vorum lika búnir að koma okkur i virkilega sterka stöðu í fyrstu framlengingu þannig það tekur á að tapa svona leikjum.” Matthías bætti líka við að það mætti einfaldlega ekki slaka neitt á á móti liði eins og KR, en það hafi ÍR-ingar hins vegar gert.
 
En hvað klikkaði í framlengingunni? “Áttum erfitt með að fá stopp eftir að við byggðum upp þetta forskot og það var erfitt að höndla þá með Trey útaf með fimm villur og engan að passa körfuna.” Matthías sér þó ljóstýru við enda ganganna: “Vorum bara algjörir klaufar en vonandi notum við þetta til að efla leik okkar enn fremur restina af tímabilinu. Við spiluðum góðan liðsbolta svona bróðurpart leiksins þótt við förum auðvitað út úr því í smá tíma. En við ætlum að nota þennan leik og byggja ofan á hann.”
 
“Spiluðum góða vörn í venjulegum leiktíma móti besta liði landsins þannig við ætlum að halda áfram þannig,” bætti Matthías jákvæður við að lokum.
 
Mynd: Pavel leiddi KR í stigum, fráköstum og stoðsendingum í kvöld. (Bára Dröfn)