Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen er staddur á landinu í undirbúningsheimsókn fyrir stærsta landsliðssumar karlalandsliðsins í íslenskri körfuboltasögu. Í mörg horn er að líta en Craig gaf sér engu að síður tíma í gær til að ræða við fjölmiðla. Craig er önnum kafinn maður þar sem hann er kennari í fullu starfi í Danmörku, þjálfari Svendborg Rabbits í dönsku úrvalsdeildinni og landsliðsþjálfari Íslands.
 
 
„Þetta er skipulagsheimsókn, ég er m.a. að ræða við sjúkraþjálfara og aðra fagaðila fyrir átökin í sumar og tryggja að ástand leikmannanna geti orðið sem best,“ sagði Craig en landsliðið verður í átökum frá Smáþjóðaleikunum fram að og með EuroBasket sem hefst í septemberbyrjun. Smáþjóðaleikarnir standa yfir dagana 1.-6. júní næstkomandi.
 
„Við munum reyna að hafa eins sterkt lið á Smáþjóðaleikunum og mögulegt er. Vonandi verða samt einhverjir leikmenn sem muni ekki geta tekið þátt í því verkefni því maður óskar þeim þess að þeir fari eins langt og hægt er í keppni með sínu félagsliði. Smáþjóðaleikarnir verða góðir til undirbúnings fyrir æfingaleikina í ágúst sem og keppnina í Berlín. Í ágúst leikum við um átta æfingaleiki sem er mun meira en síðasta sumar. Í fyrra vorum við svolítið að fela okkur fyrir njósnurum Breta og Bosníumanna því við vildum ekki gefa of mikið upp um okkur og vildum koma þessum þjóðum á óvart í okkar leik.“
 
Aðspurður um hvaða leikaðferð íslenska liðið myndi temja sér fyrir sumarið var Craig á sömu nótum og áður, viljinn til að gera leikinn óþægilegan fyrir andstæðinginn hefur ekkert dvínað. „Ég hef mikið rætt málin við Arnar Guðjónsson, sem er aðstoðarþjálfari hjá mér í Svendborg og aðstoðarþjálfari hjá mér ásamt Finni Frey í landsliðinu. Við getum ekki mikið verið að setja boltaskrín gegn liðum sem eru þau bestu í heiminum að verjast þeim. Við þurfum að finna fleiri úrræði til að valda andstæðingum okkar vandræðum, finna hluti sem þau eru óvön að sjá, gera hlutina öðruvísi og með þeim hætti reyna að vinna íslenska liðinu inn smá forskot í viðureigninni.“
 
 
Kaffispjallið um 12 manna hópinn
Í sumar munu Craig, Arnar og Finnur standa frammi fyrir því að velja 12 manna leikmannahóp sem halda mun til Berlínar. Þegar eru kaffistofur skipaðar körfuboltafólki á fullu við að velja sitt eigið 12 manna lið, hver er inni, hver er úti og sitt sýnist hverjum. Stendur Craig ekki örugglega frammi fyrir sinni stærstu áskorun á ferlinum?
 
„Gríðarleg hugsun hefur einmitt farið í þetta, við Arnar höfum rætt þetta fram og til baka og ótrúlegur fjöldi hefur sett sig í samband við Arnar og er að forvitnast um málin. Eins hafa leikmenn með þar til skilin vegabréf sett sig í samband við okkur og sýnt verkefninu mikinn áhuga. Í mínum huga er ákveðinn hópur fárra manna sem á heima í hópnum og þá er einnig nóg af plássum innan liðsins sem enn hafa ekki verið meitluð í stein, valferlið verður erfitt.
Til að byrja með gætum við verið með um sex leikmenn sem við teldum eiga heima innan liðsins, þarna er ég að tala um leikmenn eins og Jón Arnór Stefánsson. Í upphafi æfingaferilsins er mögulega ekki nauðsynlegt að þessir sterkustu einstaklingar séu viðstaddir. Ástæðan er sú að við þurfum að koma inn í æfingaferlið ungum og efnilegum leikmönnum svo þeir fái bragð af landsliðinu, fái hugmynd um hvað sé í vændum þó þeir verði ekki endilega valdir í lokahópinn. Við viljum að þessir ungu menn finni hvað er að mæta og vera með mönnum sem eru kannski nokkrum skrefum á undan þeim og það gerir þeim yngri kleift að verða sterkari. Mitt mat er að stærð æfingahópsins þegar allt er talið verði um 25-30 manns,“ sagði Craig en á hann ekki von á því að sama hvernig 12 manna hópurinn verður að þá verði valið alltaf umdeilt?
 
„Það fyrsta sem kemur mér í huga er að ég verð að gera það sem ég tel vera rétt. Frá fyrsta til síðasta leikmanns. Tökum sem dæmi, tólfti leikmaðurinn inn í hópinn verður mögulega ekkert tólfti besti körfuknattleiksmaður þjóðarinnar! Hann verður að passa inn í hlutverk tólfta mannsins og passa inn í það skipulag sem við setjum upp. Liðið verður ekki eingöngu metið á grunni bestu leikmannanna og ef fólk verður á endanum ósammála valinu þá verður það bara að vera þannig. Það er þó afar jákvætt hve margir leikmenn ætli sér að keppa um þessi pláss sem gerir okkar möguleika enn fleiri. Þeim mun meiri sem samkeppnin verður þeim mun meira þurfa okkar sterkustu menn að leggja sig fram og gætu jafnvel átt á hættu að missa af lestinni,“ sagði Craig en síðastliðið sumar varð honum einmitt tíðrætt um aldursforsetana, þá ódrepandi sem dregið hafa vagninn í rúman áratug eða svo. Nú þegar stóra stundin nálgast er það í alvöru raunveruleiki sem okkar elstu menn gætu staðið frammi fyrir, að standa á brautarpallinum og horfa á lestina leggja af stað án sín?
 
Valið felur í sér mikla ábyrgð þjálfaranna, áhrif og afleiður valsins verða margvíslegar, að leika Guð með feril manna í lúkunum, er hægt að horfa á það þannig?
„Þetta er körfubolti,“ sagði Craig og kvittaði ekki alveg upp á að vera í guðum líku ástandi með feril leikmannanna. „Valið er engu að síður gríðarlega erfið íhugun og það helsta sem ég hef brotið heilann um. Ein af aðalsástæðum þess að ég tel að hlutirnir hafi gengið svo vel síðasta sumar eru Rúmeníuleikirnir árið þar á undan og svo lendum við í þriggja landa riðli með liðum sem ég taldi strax að við gætum unnið. Sér í lagi ef þau myndu ekki tefla fram NBA leikmönnunum sínum. Þessi staðreynd hjálpaði en jafnvel stærri þáttur í velgengni síðasta sumars er að þarna voru leikmenn sem hafa aldrei látið deigan síga. Hafa farið í landsliðsverkefni með Íslandi vopnaðir gríðarstóru hjarta. Þetta eru leikmenn sem dregið hafa vagninn um árabil og þetta er mér ofarlega í huga. Þessum leikmönnum verður ekki „gefið“ plássið á EuroBasket en eins og gefur að skilja koma þeir sterklega til greina.
 
„Þetta sendir líka afar jákvæð skilaboð til yngri manna, ef þeir leggja stöðugt inn þá vinnu sem þarf þá munu þeir fá eitthvað til baka. Það er ekki eins og reynslumeiri menn landsliðsins hafi hugsað á hverju sumri að þeir ættu möguleika á því að komast inn á stórmót, þeir hafa samt mætt aftur og aftur, ár eftir ár því þeir þeir elska körfubolta, þeir eru frábært fordæmi! Þú greiðir fyrir þína eigin lukku.“
 
 
Möguleikar Íslands í Berlín
 
Þegar dregið var í riðlakeppni EuroBasket 2015 varð ljóst að Ísland hefði lent í sterkasta og mest spennandi riðil mótsins. Við þurfum litla stærðfræði á bak við þá fullyrðingu að reikniheilar alþjóða körfuboltasamfélagsins hafi ekki gefið Íslandi langt líf í keppninni sökum þessa. Hverja telur landsliðsþjálfarinn möguleika okkar vera?
 
„Þetta er erfið spurning, þetta eru íþróttir! En ef við getum spilað með þeim hætti sem öðrum liðum þykir óþægilegt að kljást við þá gætum við engu að síður tapað. En að leika með þeim hætti sem kemur andstæðingum okkar á óvart gefur okkur möguleika. Það er samt erfitt að segja, ég mun aldrei segja að við vinnum riðilinn. Það er samt annar árangur sem hægt er að ná á mótinu. Við gætum leikið mjög vel en samt tapað leiknum með 30 stigum, það sýnir styrkleikann sem við erum að fást við.
Ef við tölum t.d. um lið eins og Spán þá verða fimm NBA leikmenn inni á vellinum og þeirra næstu fimm eru kannski Euroleague-leikmenn. Möguleikinn á að spila afar vel er fyrir hendi en niðurstaðan gæti verið sú að við yrðum fjarri sigri.“
 
Hvað með þá áræðni og „hjarta“ sem liðið sýndi í Bosníuleiknum ytra. Er það ekki nesti Íslands á leið sinni til Berlínar?
 
„Frammi fyrir fullu húsi þar sem Bosníumenn hafa ekki tapað í 20 ár, það sýndi hjartað og seigluna í liðinu. Í Bosníu áttum við þrjá möguleika á því að jafna leikinn, heimamönnum til heilla höfðu þeir NBA leikmann sem gat gert úrslitamuninn í svona leik. Þessi endurkoma var mjög mikilvæg því riðillinn var gerður upp með tilliti til niðurstöðu úr öðrum riðlum svo það var stigamunur sem réði úrslitum í lokin. Ég hef svo líka gaman af því að minna á það sem Jón Arnór sagði í viðtali síðasta sumar. Hann sagði að Ísland væri nægilega brjálað til að segja að við gætum unnið hvern sem er. Í Bosníu lékum við án hans og Pavels og gerðum vel án okkar tveggja af bestu mönnum þjóðarinnar.“
 
Danir spenntir
 
Craig sem er þjálfari hjá Svendborg segist hafa fengið skemmtileg viðbrögð við öllu landsliðsævintýri sínu með íslenska liðið. Hann segir þátttöku Íslands á EuroBasket 2015 vera frábært afrek. „Manni verður stundum orðavant, stuðningurinn við okkur er mikill í Danmörku og bara í Svendborg er klúbburinn að undirbúa að fara með alla okkar styrktaraðila niður til Berlinar til þess að sjá einn til tvo leiki með íslenska liðinu. Það körfuboltafólk sem maður þekkir er auðvitað mjög spennt sem og spennt fyrir Íslandi.“
 
Önnum kafinn
 
„Ég er kennari í fullu starfi, þjálfari Svendborg og þjálfari íslenska landsliðsins. Já það er mikið að gera. Þetta hefur verið mikið hugsanaferli til þessa og brátt kemur til kasta framkvæmdanna. Taktík er það sem mikið hefur verið skoðað og gott að byrja snemma því það leyfir hlutunum að gerjast hjá manni. En já…það er mikið að gera en starfið mitt er einnig mitt áhugamál svo þetta eru forréttindi þó tímafrek séu þau.“
 
EIns og áður hefur komið fram víða í fjölmiðlum hefur miðasala hjá KKÍ farið fram úr björtustu vonum og komnir biðlistar eftir miðum til Berlínar. Við megum reikna með allt að eittþúsund Íslendingum á leikjunum í Berlín.
„Stuðningurinn er ótrúlegur, þetta mun þýða mikið fyrir okkar leikmenn á útivelli í Evrópu. Ísland sem þjóð mun öðlast mikla virðingu fyrir að mæta með jafn marga stuðningsmenn. Ef það koma 500 manns frá Spáni er það ekki neitt í samanburði við 500 sem kæmu frá Íslandi. Hann heillar mig þessi stuðningur og hann er leikmönnum okkar gríðarlega mikilvægur.