1.deildar lið Njarðvíkur tók í kvöld á móti úrvalsdeildarliði KR í Poweradebikarnum nánast tiltekið í 8 liða úrslitum bikarsins. Njarðvíkurstúlkur sem fyrr segir í 1.deildinni og ósigraðar þar þetta árið.  Og það breytist lítið í kvöld þó svo að útlitið hafi ekkert verið gríðarlega gott framan af leik. Þær grænklæddu gerðu sér lítið fyrir og sigruðu KR 56:49 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 16:30 gestunum í vil. 
 Það var fátt sem bendi til annars en að úrslitin færu eftir bókinni góðu eins og sagt er. Jafnt var á með liðunum framan af fyrsta fjórðung en svo þegar líða tók á fyrri hálfleik fóru gestirnir úr KR að síga framúr.  Reynsluleysi Njarðvíkurstúlkna sagði til sín enda liðið kornungt.  Ekki skánaði útlitið fyrir Njarðvík þegar Nikitta Gartrell snéri sig illa á ökkla undir lok fyrri hálfleiks og óvíst var hvort hún skildi klára leikinn. En stúlkan kom haltrandi úr búningsherbergjum í byrjun seinni hálfleik og harkaði þessi meiðsli af sér. 
 
Það var svo í þriðja leikhluta sem að heimaliðið tók öll völd á vellinum.  Með góðri vörn og fínum einföldum sóknarleik söxuðu þær hægt og bítandi á forskot KR stúlkna.  Það var svo um miðbik fjórða leikhluta sem að loksins að þær náðu að jafna leikinn í stöðunni 49:49 og stemmningin öll Njarðvíkurmegin í leiknum.  Þær hömruðu stálið heitt og settu þrist í næstu sókn sinni og höfðu loksins náð forystunni í leiknum.  Þessa forystu létu þær ekki af hendi og silgdu sætum sigri í land og komnar áfram í næstu umferð bikarsins. 
 
Það verður að segjast að þetta “comeback” hjá Njarðvíkurstúlkum var hreint út sagt magnað að sjá. Þær börðust sem ljónynjur á alla lausa bolta og gáfu KR aldrei frið í varnarmegin á vellinum.  Langar og þolinmóðar sóknaraðgerðir þeirra virtust svæfa KR vörnina og galopið skot var uppskera þess.  KR stúlkur hinsvegar koðnuðu niður þegar mest á reyndi og fóru einfaldlega að reyna erfiðari hluti en þær voru búnar að vera gera í leiknum sem virkuðu vel.  Hvort um vanmat eftir fínan fyrri hálfleik sé hægt að kenna um verður ósagt en þær svo sannarlega fóru illa með góða stöðu sína.