Piltarnir frá Hólminum síheillandi mættu í Ásgarð í kvöld í 15. umferð Dominos-deildarinnar. Þar er allt í mjög ógreinilegum hrærigraut frá 3-9. sæti. Í honum hrærast bæði Snæfellingar og Stjörnumenn og athyglisvert að sjá hvort liðið næði nefinu upp úr grautnum með sigri í kvöld. Herra Garðabær kynnti liðin til leiks og bauð gestina frá Snæfellsbæ velkomna við litla hrifningu Snæfellsmegin – enda svipað og að tengja Skallagrím við Borgarbyggð og Keflavík við Reykjanesbæ! Þennan misgáning leiðrétti herra Garðabær snarlega og leikar gátu hafist.
 
 
Heimamenn byrjuðu öllu betur í leiknum með Meistara Shouse og Dag í broddi fylkingar. Atkinson hafði líka greinilega mikinn áhuga á því að sanna sig, bauð m.a. upp á iðnaðartroð en virkaði samt sem áður býsna taugaveiklaður. Austin Magnus og Woods héldu þó gestunum vel inni í leiknum en fáir aðrir voru tilbúnir, allra síst Sveinn Arnar sem virtist hreinlega ekki vilja vera inn á vellinum! Heimamenn með 22-17 forystu eftir fyrsta fjórðung. Liðin buðu upp á áberandi átakanlega vondan körfuknattleik síðustu þrjár mínúturnar í leikhlutanum, gestirnir sínu verri með 22% skotnýtingu í tveggja stiga skotum!
 
Gestirnir hresstust til muna í öðrum leikhuta. Austin var enn sjóðandi, einkum fyrir utan línuna. Woods var einnig að spila frábærlega, stal boltum, varði skot ítrekað og kórónaði frammistöðuna með því að troða yfir Garðbæinga og setja víti í kjölfarið! Snæfellingar komust í 24-26 en þá fór aftur allt á versta veg fyrir gestina. Dagur tók upp á því að raða niður þristum og Shouse fór svo að fordæmi hans. Mikið skemmtilegri körfubolti í boði í þessum leikhluta. Í raun algert kraftaverk að heimamenn leiddu aðeins með fjórum stigum, 48-44 í hálfleik.
 
Þrátt fyrir að hinum skemmtilega baráttuhundi Stjörnumanna, Jóni Orra, hafi verið ítrekað gersamlega fyrirmunað að skora héldu heimamenn nokkurra stiga forskoti framan af í þriðja leikhluta. Um miðbik hans áttu gestirnir hins vegar sinn besta kafla þar sem fleiri en Austin og Woods byrjuðu að skila molum. Sveinn Arnar fór illa af stað en bauð upp á tvo þrista í röð, Pálmi og Stefán fylgdu því svo eftir með körfu góða og víti. Gestirnir komu sér í 62-67 á þessum kafla en stemmningsþristur Shouse varð til þess að heimamenn héldu enn forystunni, 70-68, fyrir fjórða leikhluta.
 
Austin var enn sjóðandi fyrir utan línuna og kom gestunum yfir aftur 70-71 í upphafi fjórða leikhluta. Það var hins vegar í síðasta skiptið því heimamenn sigldu hljóðlega framúr eftir það. Vörn Stjörnumanna varð þéttari og sóknarleikur Snæfellinga stirðbusalegur í jöfnu hlutfalli við það. Woods var heillum horfinn og skoraði varla stig í síðari hálfleik þrátt fyrir nokkur góð tækifæri. Munurinn var kominn í níu stig, 90-81 þegar þrjár mínútur voru eftir og var enn sá sami mínútu síðar er Marvin setti niður risavaxinn þrist. Jafnframt var hinn sjóðandi heiti Austin Magnus sestur á bekkinn með 5 villur þegar þarna var komið við sögu. Shouse stýrði skútunni svo nokkuð örugglega í höfn með stórglæsilegu gegnumbroti skömmu síðar. 97-88 sigur Stjörnumanna staðreynd.
 
Það er erfitt að finna orð til að lýsa frammistöðu Meistara Justin Shouse í þessum leik. Hann spilaði eins og kóngur, skoraði 34 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Skotnýtingin var frábær, setti t.a.m. 12 víti af 12 í gegnum hringinn. Það er í raun ósanngjarnt að Dagur Kár þurfi að vera í dulitlum skugga meistarans því Dagur átti líka afbragðs leik, setti 28 stig og bauð jafnvel upp á enn betri nýtingu! Hinn nýi Kani Stjörnumanna, Jeremy Atkinson, sló ekki beint í gegn í kvöld. Hann var þó þriðji stigahæstur með 16 stig og lengi skal manninn reyna. Spennandi er að sjá hvort hann muni fara vaxandi.
 
Hjá gestunum var fyrrnefndur Austin Magnus heitur og endaði með 30 stig. Woods var næstur með 18 en leikhléið virtist fara afar illa í kappann! Aðrir þurfa að gera mun betur ætli liðið sér sigur á erfiðum útivelli – leikmaður eins og Siggi Þorvalds þarf t.d. að taka meira til sín en hann skilaði aðeins 8 stigum í kvöld.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson