Íslandsmeistarar Snæfells tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins með góðum heimasigri 87-65 gegn Val eftir að staðan í hálfeik hafði verið 34-31. Stigahæst í liði Snæfells var Kristen McCarthy með 30 stig og 12 fráköst.
 
 
Valsstúlkur mættu í varnargír í hólminn og héldu heimasætum í 8 stigum fyrstu sjö mínútur fyrsta leikhluta en þær leiddu 12-13 eftir fyrsta leikhluta. Gunnhildur Gunnars var komin með tvær villur strax í upphafi. Valsstúlkur komust í 14-18 en þá náðu heimastúlkur 8-0 kafla og komust yfir 22-18. Jafnræði var á meðal liðanna áður en Snæfell komust níu stigum yfir 34-25 þegar um 2 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Taleya Mayberry sem gerði 11 stig í leikhlutanum náði að laga stöðuna fyrir hálfleik og staðan 34-31 Snæfell í vil.
 
Í hálfleik var Gunnhildur Gunnarsdóttir stigahæst hjá Snæfell með 12 stig en Kristen McCarthy kom næst með 10. Hjá Val var Taleya Mayberry stigahæst með 13 stig, en þær Guðbjörg og Kristrún komu næstar með 5 stig hvor.
 
Ragna Margrét minnkaði muninn í 34-33 strax í upphafi seinni hálfleiks en mikil áræðni hjá heimastúlkum skilaði þeim 18-5 áhlaupi og staðan 52-38 eftir 6 mínútuna leik í þriðja leikhluta. Snæfellsstúlkur komnar algjörlega með tökin á leiknum þar sem Berglind Gunnarsdóttir og Kristen McCarthy fóru fyrir liði Snæfell sóknarlega en þær smelltu 11 stigum í leikhlutanum hvor. Valsstúlkur náðu með baráttu að koma muninum niður í 14 stig fyrir lok þriðja leikhluta og staðan 64-50 Snæfell í vil.
 
Snæfell héldu áfram að brjóta vörn Valsstúlkna niður og komust í 76-53 áður en gestirnir skoruðu 0-10 og minnkuðu muninn í 13 stig. Snæfellsstúlkur voru samt ekkert á því að slaka á einsog í síðasta heimaleik og enduðu leikinn á að vinna 22 stiga sigur 87-65.
 
Kristen McCarthy var stigahæst með 30 stig og 12 fráköst en næst henni kom Berglind Gunnarsdóttir með 15 stig og 4 stoðsendingar.
Hjá Valsstúlkum var Taleya Mayberry stigahæst með 25 stig og 9 fráköst, en næst kom Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 11 stig og 7 fráköst.
 
Snæfellsstúlkur eru þar með komnar í pottinn fyrir undanúrslitin ásamt Grindavík sem sigruðu Hauka í framlengdum leik á sama tíma. Hinir tveir leikirnir fara fram á sunnudag og mánudag en á þriðjudag verður dregið í undanúrslit Poweradebikarsins.