Nágrannaslagurinn Battle of Brooklyn, þar sem erkifjendurnir LIU Brooklyn Blackbirds og St. Francis Terriers munu bítast um montréttinn í Brooklyn, er í kvöld. Við eigum íslenska fulltrúa í báðum þessum liðum og því margir eflaust spenntir fyrir þessari viðureign.
 
Nýliði vikunnar í NEC riðlinum, Martin Hermannsson og fyrrverandi nýliði vikunnar Elvar Már Friðriksson ásamt LIU Brooklyn, mæta Fjölnismanninum/Keflvíkingnum Gunnari Ólafssyni í þessum leik.
 
LIU hafa sigrað 8 og tapað 12 í vetur en unnið 4 og tapað 5 í NEC. St. Francis hins vegar hafa sigrað 13 leiki en tapað 9 og sigrað 7 leiki og tapað aðeins 2 innan NEC riðilsins.
 
LIU er mikið til mannað af nýliðum en hjá St. Francis er mikið um leikmenn á lokaári sínu í háskólaboltanum. Terriers ættu því að vera með yfirhöndina á pappírunum og líklegir sigurvegarar í leiknum. Aftur á móti, þegar um nágrannaslag og áratuga langa hefð milli þessarra skóla, þá er allt opið.
 
LIU Brooklyn er með yfirhöndina í sigrum milli þessarra liða frá upphafi en Svartþrestirnir hafa sigrað 23 sinnum en St. Francis 16 sinnum. LIU hefur einnig sigrað síðustu 3 viðureignir liðanna í BoB.
 
“Þetta verður virkilega gaman,” sagði Martin í spjalli við Karfan.is í gær. “Það fyrsta sem þjálfarinn sagði eftir leik í gær að við þyrftum að búa okkur undir stríð.” Martin sagði einnig að mikil spenna væri í skólunum fyrir þessum leik. “Það vilja allir ríkja yfir Brooklyn.”
 
Gunnar segir að búast megi við stappfullu íþróttahúsi annað kvöld. “Þetta verður svona eins og þegar Keflavík mætir Njarðvík,” sagði hann og skellti upp úr. “Það á eftir að vera svakaleg stemning.”
 
Leikurinn er kl 21:00 í kvöld og verður sýndur beint (eftir því sem undirritaður best veit) hér á NEC Front Row.
 
Gunnar Ólafsson verður ritstjórinn okkar á Snapchat á morgun og færir okkur stemninguna fyrir Battle of Brooklyn beint í æð. Fylgist með.