Margrét Rósa Hálfdánardóttir og félagar í Canisius Golden Griffins töpuðu í gær fyrir Iona Gaels, 80-62. Margrét skoraði 7 stig á 18 mínútum og bætti við 2 stolnum boltum. 
 
“Mér líður mjög vel hér úti,” sagði Margrét í stuttu spjalli við Karfan.is um helgina. “Bæði í boltanum og í skólanum. Liðið er að verða betra og betra með hverjum leiknum.”
 
Þær hafa mætt mörgum mjög erfiðum andstæðingum fyrir jól í leikjum utan riðilsins. Þar á meðal voru Syracuse, sem voru nr. 19 á styrkleikalistanum á þeim tíma, og einnig Michigan sem er mjög sterkt lið líka. 
 
“Þessir leikir drógu aðeins úr okkur og þurftum við að peppa okkur aftur upp áður en deildin okkar byrjaði,” bætti hún við. “Það hefur sem betur fer tekist og þrátt fyrir nokkur töp í deildinni þá hafa þeir leikir verið jafnir.”
 
Margrét segir mikla samkeppni í þeim riðli sem þær spila í “og ráðast leikirnir oft á seinustu mínútunum.”
 
Mynd: GoGriffs.com