Magnús Þór Gunnarsson hefur samið við Skallagrím og mun leika með Borgnesingum út þetta tímabil. Magnús sagði skilið við Grindvíkinga á dögunum og í dag bárust fregnir af honum á æfingu í Borgarnesi í gærkvöldi. Blek er nú komið á blað og Magnús löglegur með Borgnesingum gegn Keflavík annað kvöld.
 
Finnur Jónsson nýráðinn þjálfari Borgnesinga var ánægður með nýjasta liðsmanninn þegar Karfan.is heyrði í honum í kvöld. „Já ég er virkilega sáttur, þarna er hafsjór af reynslu sem eykur gæðin mikið í okkar hóp,“ sagði Finnur um Magnús.
 
Skallagrímur er eitt af þremur botnliðum deildarinnar með fjögur stig eins og ÍR og Fjölnir en innbyrðis stendur Skallagrímur best í samanburði þessara þriggja liða og er því í 10. sætinu.
 
Mynd/ Magnús Þór í leik með Grindavík gegn Keflavík fyrr á tímabilinu. Magnús er því í annað sinn þessa vertíðina á leið í TM-Höllina.