FSu liðið magalenti í sinni fyrstu ferð á nýju ári, eftir ansi háfleygan lokakafla fyrir jól. Breiðablik var í heimsókn í kvöld í 1. deild karla og vann með 11 stiga mun, 82-93. Eftir jafnan leik áttu þeir meira eftir á tankinum í lokin og unnu nokkuð verðskuldaðan sigur.
 
 
Það var jafnræði á upphafsmínútunum, 15-15 eftir 7 mínútur en þá tóku heimamenn frumkvæðið og skoruðu 8 síðustu stig fyrsta leikhluta, leiddu 23-15 að honum loknum. FSu hélt u.þ.b. 10 stiga forystu fram eftir öðrum hluta en þegar dró að hálfleik sigu Blikarnir á, jöfnuðu og komust yfir, leiddu 39-41 í leikhléi. FSu tók aftur forystuna en gestirnir seigluðust og jöfnuðu fyrir lok þriðja hluta 58-58. Eftir þrjár mín. í síðasta leikhluta var FSu einu stigi yfir, 63-62 , en á lokakaflanum hafði Breiðablik yfirhöndina og með Collin Pryor á bekknum með 5 villur gátu heimastrákar ekki snúið taflinu sér í hag, þrátt fyrir að reyna til síðustu stundu og gefast ekki upp.
 
Þetta var dæmigerður leikur liðs eftir skeið þar sem flest hefur gengið upp. Heimamenn voru ekki tilbúnir í þann slag sem þeim var boðið í. Blikar aftur á móti mættu glerharðir til leiks, spiluðu fast og héngu á roðinu hvað sem tautaði og raulaði.
 
Leikurinn var ekki skemmtilegur, hnoð og stympingar fram og til baka, teikað og haldið frá bolta og ósamræmi í dómgæslu hrópandi. Fremur grófir og áberandi pústrar voru látnir ligga milli hluta en flautað samviskusamlega þegar einhver hafði hugsanlega kannski strokist við andstæðing. Ekki bætti þetta skemmtanagildið.
 
Breiðablik lagar stöðu sína með sigrinum í baráttunni fyrir úrslitasæti. Þetta er hörku lið og margir ágætir strákar sem leggja hver og einn sitt af mörkum. Þeir unnu leikinn sennilega á sóknarfráköstum, keyrðu þar af fullum krafti í menn og létu finna fyrir sér og uppskáru 14 sóknarfráköst gegn aðeins 6 og 45 alls gegn 31 frákasti heimamanna.
 
FSu-menn voru í kvöld skotnir niður á jörðina og skilja vonandi eftir þennan leik að það þarf að vinna fyrir hverjum sigri og ekki hægt að dúlla sér í jólafríi þó vel hafi gengið framan af desember. Það er holl og góð lexía og engin ástæða til að efast um að hún verði meðtekin og þess sjái stað í næsta leik.
 
Breiðablik: Egill Vignisson 20 stig og 8 fráköst, Nathen Garth 19 stig og 9 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 16 stig 6 fráköst og 4 stoðsendingar, Pálmi Geir Jónsson 10 stig og 5 fráköst, Snorri Vignisson 8 stig og 6 fráköst, Halldór Halldórsson 8 stig, Ásgeir Nikulásson 7 stig, Garðar Pálmi Bjarnason 4 stig og Breki Gylfason 1 stig.
 
FSu: Collin Pryor 23 stig og 10 fráköst, Ari Gylfason 18 stig og 5 fráköst, Hlynur Hreinsson 15 stig, 10 stoðsendingar og 4 fráköst, Geir Elías Úlfur Helgason 10 stig, Arnþór Tryggvason 4 stig og 6 fráköst, Birkir Víðisson 4 stig, Erlendur Stefánsson og Svavar Ingi Stefánsson 3 stig og Fraser Malcolm 2 stig.
 
  
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
Mynd úr safni