Allt stefndi í stórsigur Fairleigh Dickinson á LIU í gærkvöldi þar sem gestirnir pressuðu stíft á LIU og vörðu hvert skot á fætur öðru við hringinn í fyrri hálfleik. Elvar Már átti slakan leik í gær, annan leikinn í röð með ekkert stig og eina stoðsendingu á 23 mínútum, og ljóst að Jack Perri þjálfari þurfti að gera róttækar breytingar.
 
Perri setti inn fjóra bakverði ásamt Nura Zanna, miðherja liðsins til að hrista upp í sóknarleik LIU. Það gekk upp með Martin Hermannsson í broddi fylkingar sem leiddi liðið sem leikstjórnandi og leysti pressu Fairleigh eins og fagmaður á meðan LIU át upp 13 stiga forystu Fairleigh í seinni hálfleik.
 
Fairleigh reyndust hins vegar sterkari á endasprettinum og tryggðu sér 5 stiga sigur á LIU.
 
Gerrell Martin leiddi LIU með 23 stig. Martin hitti mjög illa í leiknum og endaði með 2 stig og 5 stoðsendingar. Elvar hitti einnig mjög illa eða var 0/3 utan af velli en tók niður 4 fráköst.