Powerade bikarinn heldur áfram í kvöld. KR tekur á móti Keflavík í bikarkeppni karla og Njarðvík tekur á móti KR í bikarkeppni kvenna. Báðir leikir hefjast kl. 19:15 í kvöld.
Keflvíkingum bíður það stóra verkefni að leggja af velli ósigraða KR-inga á þeirra eigin heimavelli. KR er eins og áður sagði ósigraðir á toppi Dominosdeildarinnar en Keflvíkingar eru fyrir miðri deild í 6. sæti 7 sigra og 6 töp. Bikarkeppnin er hins vegar eins og allir vita allt önnur keppni þar sem allt getur gerst.
Njarðvík tekur á móti úrvalsdeildarliði KR kvenna, en Njarðvík trónir á toppi 1. deildar ósigrað með 7 sigurleiki í farteskinu. KR-ingar hafa átt erfitt uppdráttar í Dominosdeild kvenna en þær sitja í 6. sæti deildarinnar með 3 sigra og 13 töp. KR-ingar eru hins vegar með nýjan þjálfara meðferðis sem gæti nýtt tækifærið og kveikt nýjan loga í liði sínum með góðum sigri hér í Ljónagryfjunni.
KR – Keflavík, DHL höllin kl. 19:15
Njarðvík – KR, Ljónagryfjan kl. 19:15
Mynd: Það verður erfitt fyrir Keflvíkinga að stöðva Pavel Ermolinski sem er með þrennu að meðaltali í leik.