Sjálfsagt eru margir enn að jafna sig eftir leik gærkvöldsins í Borgarnesi þegar Skallagrímsmenn lögðu Hauka í tvíframlengdum leik 106:101. Skallagrímsmenn leiddu framan af leik og voru yfir í hálfleik 48:45. Þeir bættu í forskot sitt í síðari hálfleik og voru tíu stigum yfir 83:73 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þá kom góður kafli hjá Hafnfirðingum sem sættu lagi og jöfnuðu leikinn 84:84 þegar einungis fáeinar sekúndur voru eftir. Skallagrímsmenn reyndu að ljúka leiknum en skot Sigtryggs Arnars Björnssonar í leikslok geigaði. Framlenging var því staðreynd og mátti greina hroll hjá mörgum stuðningsmönnum á pöllum Fjóssins við þá tilhugsun, enda ófarir Skallagrímsmanna í framlengingunni gegn Grindvíkingum á dögunum enn í fersku minni.