Furman Paladins kíktu í heimsókn til The Citadel Bulldogs í dag og fóru heim með sigur í farteskinu. Leikurinn var jafn lengst af í fyrri hálfleik og leiddu Citadel með þremur stigum 27-30 í hálfleik. Í seinni hálfleik sprakk út nýliðinn Devin Sibley og skoraði 20 af 25 stigum sínum í seinni hálfleik. Okkar maður Kristófer Acox var góður allan leikinn og endaði með 10 stig og 13 fráköst – þar af 8 sóknarfráköst. Paladins hittu afburðarvel í leiknum eða 51,9% í heildina og 41,2% fyrir utan þriggja stiga línuna.
 
“Þetta var góður liðssigur í kvöld,” sagði Kristófer í spjalli við Karfan.is eftir leikinn.  ”Við vorum bara með 7 tapaða bolta í öllum leiknum og aðeins 1 í seinni hálfleik. Við spiluðum virkilega góða vörn í seinni hálfleik og það var gott flæði í sókninni. Það var það sem gerði út um leikinn.” 
 
En eiga Furman enn möguleika á að komast í stóru keppnina í mars eða March Madness eins og hún er kölluð á frummálinu? “Já, auðvitað. Öll liðin eiga séns ennþá. Lokakeppnin í riðlinum er í byrjun mars og sigurvegarinn úr því móti kemst í lokakeppni NCAA deildarinnar.”