KR-ingar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins með öruggum sigri á Keflavík í DHL höllinni 111-90. Þetta var ekki áferðarfagur leikur en honum virtist að mestu lokið eftir fyrsta leikhluta.
 
Það að skora 38 stig á fyrstu 10 mínútum leiksins segir sennilegast mest um hversu slök Keflavíkurvörnin var gegn KR í fyrsta leikhluta. KR-ingar hittu afburðarvel með 15/21 nýtingu. Michael Craion skoraði 16 stig einn og sér í fyrsta hluta. KR-ingar sigruðu frákastabaráttuna í fyrsta hluta 18-5. En þrátt fyrir þessa frammistöðu KR tókst hins vegar Keflvíkingum á einhvern máta að skora 25 stig á fyrstu 10 mínútum leiksins. Það er að mörgu leyti vitnisburður um varnarleik KR sem slaknaði í öllum asanum. Pace í fyrsta hluta var 99,3 uppreiknað á fjóra leikhluta, langt fyrir ofan meðaltal deildarinnar.
 
Úrræðaleysi Keflvíkinga hélt áfram í öðrum hluta en KR skoraði 27 stig í fjórðungnum gegn 22. Keflvíkingar hertu sig í fráköstunum og héldu KR-ingum alveg frá öllum sóknarfráköstum í öðrum hluta. KR skoraði 1,38 stig per sókn í fyrri hálfleik og endaði með hvorki meira né minna en 65 stig í hálfleik, en hafði leyft 47 frá Keflavík sem er 7 stigum frá meðaltali andstæðinga KR í hálfleik í DHL höllinni.
 
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur hefur lesið sínum mönnum pistilinn í hálfleik því þeir komu mun hressari til baka og spiluðu lengst af töluvert betri varnarleik og sóknin flæddi betur. En það hélt KR ekki frá því að skora 26 stig. 
 
Í fjórða hluta var leiknum lokið. Finnur Freyr, þjálfari KR farinn að henda leikmönnum af bekknum inn á völlinn og Keflvíkingar höfðu hent inn handklæðinu. Enginn spilaði vörn og mikið var um að leikmenn Keflavíkur brenndu af skotum undir körfunni. 
 
Munurinn hefði verið töluvert meiri hefðu KR-ingar ekki tapað 18 boltum og brennt af 11 vítum. Þeir skutu mjög vel í leiknum, 27/49 innan þriggja og 11/21 utan. KR skoraði 1,17 stig per sókn í leiknum og sóknarnýting þeirra var 55,1%. Skotnýting Keflavíkur var hins vegar skelfileg eða 32/88 alls og þeir skoruðu 0,94 stig per sókn og nýttu 42,6% sókna til að skora eitt stig eða meira.
 
Alls voru dæmdar 54 villur í leiknum og tókst Davíð Pál Hermannssyni, leikmanni Keflavíkur að fá 5 villur dæmdar á sig á 5 mínútum. 
 
Hjá KR Michael Craion atkvæðamestur með 26 stig og 12 fráköst. Brynjar Þór bætti við 21  stigi en hann skaut 7/9 utan af velli. Pavel Ermolinski vantaði aðeins 1 stig í sjöundu þrennu sína í vetur, en hann var með 9 stig, 19 fráköst og 16 stoðsendingar í leiknum. Hjá Keflavík var Devon Usher sá eini sem virtist nenna þessu. Hann skoraði 26 stig og tók 10 fráköst. Athygli vakti innkoma Andrésar Kristleifssonar af bekknum hjá Keflavík en hann setti niður 10 stig og tók 6 fráköst á 12 mínútum. 
 
 
 
 
Mynd: Pavel Ermolinski vantaði aðeins 1 stig í risaþrennu gegn Keflavík í undanúrslitum bikarsins (Tomasz Kolodziejski)