Það var boðið upp á hörkuleik í kvöld í Röstinni er Grindavík tók á móti Breiðablik en Grindvíkingar frumsýndu nýjan erlendan leikmann, Kristina King. Fyrsti leikhluti gaf þó ekki til kynna að um jafnan leik yrði að ræða en í stöðunni 10-9 átti Grindavík góðan sprett og komust í 23-10 á aðeins örskömmum tíma og staðan eftir fyrsta leikhluta var 27-17 fyrir Grindavík. Blikastelpur mættu af krafti í annan leikhluta og um miðjan leikhlutann settu þær 7 stig í röð og komust yfir, 34-35. Leikurinn var jafn og spennandi í framhaldinu en Grindavík náði að slíta sig aðeins frá Breiðablik fyrir hálfleik en hálfleikstölur voru 49-44.
 
 
Þriðji leikhluti var ágætlega spilaður að báðum liðum sem skiptust á að vera í forustu eða var jafnt en undir lok leikhlutans skoraði Kristina King 6 stig fyrir Grindavík sem leiddu 68-63 þegar flautað var til loka þriðja leikhluta. Fjórðu hluti var mjög spennandi og blikastelpur byrjuðu fjórða leikhluta vel og minnkuðu muninn í 70-68 er Arielle Wideman setti 2 stig. Grindavík svarar um leið og Breiðablik fylgir á eftir með and-1 körfu hjá Elínu Sóley Hrafnkelsdóttur og staðan 72-71. Grindavík skorar næstu 5 stig og komast í 77-71 og síðan í 81-75 og 2 mínútur eftir. Breiðablik reyndu að minnka muninn og komast aftur inn í leikinn en sóknirnar voru of tilviljunarkenndar og smá óðagot í gangi og Grindavíkurstelpur spiluðu af skynsemi og sigldu sigrinum í höfn, 83-78. Grindavík átti ekki sinn besta leik í dag en góður nokkra mínútu kafli í fyrsta leikhluta skyldi liðin að í lok leiks. Að sama skapi átti Breiðablik fínan leik en nokkra mínútu einbeitingaleysi í 1.leikhluta gaf Grindavík forskot sem þær náðu að brúa en orkan sem fór í það var of mikil til að þær næðu að landa sigri.
 
Grindavíkurstúlkur voru leiddar áfram af Kristinu King (20 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolnir), Maríu Ben Erlingsdóttur (20 stig) og Petrúnellu Skúladóttur (17 stig og 7 fráköst). Einnig átti Guðlaug Björt Júlíusdóttir (8 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar) fínan leik.
 
Hjá Breiðablik voru það Arielle Wideman (21 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar), Jóhanna Björk Sveinsdóttir (12 stig og 9 fráköst) og Berglind Karen Ingvarsdóttir (10 stig) sem eru þekktar stærðir og stóðu sig vel ásamt Anítu Rún Árnadóttir (12 stig og 5 stoðsendingar). Einnig verður að nefna Elínu Sóley Hrafnkelsdóttir sem er ung og efnilegur leikmaður og var hún með 9 stig og 7 fráköst og á hún svo sannarlega framtíðina fyrir sér ef hún heldur svona áfram.
 
 
Umfjöllun/ Bryndís Gunnlaugsdóttir