Það voru lið í ólíkri stöðu sem mættust í DHL höllinni í kvöld. KR liðið nýfallið úr bikarnum eftir stórundarlegt tap á móti 1.deildarliði Njarðvíkur þar sem KR stúlkur glutruðu niður afar vænlegri hálfleiksstöðu svo ekki sé meira sagt. Keflavíkurliðið sem hefur verið massíft í vetur og situr sem fastast í 2.sæti deildarinnar var ekki árennilegur mótherji fyrir KR-stúlkur sem hafa nú engu að keppa nema að halda sér í deild hinna bestu.
 
 
Leikurinn fór vel af stað fyrir KR. Bergþóra Holton opnaði með þrist og þær svarthvítu virtust mæta vel stemmdar til leiks. KR-stelpur voru grimmar í öllum sínum aðgerðum, fastar fyrir í vörninni og óhræddar við að keyra á körfu Keflvíkinga. Kefstúlkur sem enn virtust ringlaðar eftir Reykjanesbrautina vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið, sem er óvenjulegt enda Suðurnesjamenn öllu jafna með eindæmum veðraðir, en gerum ekki veður úr því. Þessi fyrirfesta KR stúlkna gaf þeim 15-9 forskot þegar 6 mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Þegar 3 mínútur lifðu af leiktímanum sá þrautreyndur þjálfari Keflavíkur, Sigurður Ingimundaron, að aðgerða var þörf og gerði drastíska þrefalda skiptingu og fór yfir í grimma svæðisvörn. Þetta hægði á leiknum sem og KR-ingum og var staðan í lok 1.leikluta 20:16. Bergþóra var að spila vel með 9 stig fyrir KR og hafði Marín átt flotta innkomu í Keflavíkurliðinu með 7 stig á 3 mínútum og var stigahæst.
 
Keflavík hélt áfram í 2.leikhluta eins og þær höfðu endað þann fyrsta. Grimm, hreyfanleg svæðisvörn sem reyndist KR-stúlkum erfið. Við þetta bættist ekta Keflavíkurpressuvörn um allan vörn og við það brotnuðu Vesturbæjarmeyjar. Það tók Keflavík 2 mínútur að komast yfir 22:23 og eftir 6 mínútna leik var staðan orðin 24:36 fyrir KR. Þá höfðu Kefstúlkur átt 20:4 “rönn” og átt nær því öll þau fráköst sem í boði voru, þá ekki síst sóknarfráköst sem gáfu svo auðvelda körfu. KR stúlkur virtust hálf ráðþrota. Svæðisvörn Keflavíkur bauð þeim upp á skotin sem þær oft á tíðum þorðu ekki að taka og hvað eftir annað létu þær skotklukkuna renna út. Staðan í hálfleik var 28:44 og vann Keflavík leikhlutann 8:26.
 
Seinni hálfleikur var hálf tíðindalítill. KR gekk betur að eiga við svæðisvörn gestanna og mátti sjá að hálfleiksræða þjálfara KR hafði blásið í þær svarthvítu lífi. Það vakti athygli undirritaðs að þó spilað hafði verið af ákefð og grimmd stóran hluta þessa leiks þá var enginn leikmaður kominn með fleiri en 1 villu þegar 25 mínutur voru liðnar af leiknum. 3.leikhluti endar 39:58 og Kef vinnur hann með 2 stigum(12:14).
Lokaleikhlutinn var hálfpartinn í hlutlausum gír þar sem minni spámenn fengu að spreyta sig og gerðu það með sóma.
Lokastaða 50:76
Hjá Keflavík var Carmen stigahæst með 16 stig og 14 fráköst . Líkt og kollegi sinn í Keflavík skoraði Simone einnig 16 stig og leiddi stigaskor KR-inga.
Þokkalegur körfuboltaleikur þar sem leikurinn vannst hjá Keflavík og tapaðist hjá KR í 2.leikhluta.
 
Texti:Þorbjörn Geir Ólafsson