Breiðablik þurfa enn að bíða eftir fyrsta heimasigri sínum en þær tóku á móti Keflavík í kvöld í 15. umferð Dominosdeildar kvenna. Leikurinn byrjaði kröftuglega og skoruðu bæði liðin grimmt. En strax í öðrum fóru Keflavíkurstúlkur að síga frammúr og eftir þriðja leikhlutann voru þær með örugga 24 stiga forystu og leikurinn þar með unninn. Carmen Tyson-Thomas var fremst í flokki hjá Keflavík og var hún með 33 stig og 15 fráköst í 55-90 sigri þeirra.
 
Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir byrjaði af krafti fyrir Keflavík og skoraði hún fyrstu 4 stig þeirra. Aníta Rún Árnadóttir var komin með 5 stig fyrir Breiðablik eftir tveggja mínútna leik og átti hún eftir að bæta við þremur stigum að auki áður en leikhlutanum lauk. Annars var jafnræði með liðunum og þau að skiptast á körfum í upphafi. Jafnræðið var það mikið að þegar Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoraði og-eina þá varð Carmen Tyson-Thomas ekki skemmt og rauk hún í sókn og sótti eina slík sjálf. Breiðablik áttu þá góðan kafla og komust 5 stigum yfir í stöðunni 21-16. Keflavík var lítið fyrir það og komu sér yfir 21-22 þegar 40 sekúndur voru eftir af leikhlutanum en Jóhanna sá til þess að Breiðablik leiddu 23-22 með því að skora loka körfu leikhlutans.
Arielle Wideman var ekki komin á blað í stigaskorun eftir fyrsta leikhlutann en hún var þó komin með meira tvöfalt fleiri stoðsendingar en allt Keflavíkurliðið, eða 5 talsins.
 
Keflavík komu sterkar inn í annan leikhlutann og hófu hann á 8-0 yfirspilun fyrstu mínúturnar. Það tók Breiðablik fjóra og hálfa mínútu til að skora sín fyrstu stig í leikhlutanum. Arielle skoraði loksins sína fyrstu körfu eftir að hafa leikið í 15 mínútur án stiga, en það má þó ekki skilja það sem að hún hafi ekki gert gagn hjá Breiðablik fram að því. Þegar Keflavík leit út fyrir að vera fara stinga af þá setti Berglind Karen Ingvarsdóttir þrist til að koma Breiðablik inn í leikinn og halda Keflavík innan seilingar. En Keflavík voru tölvert betri í leikhlutanum og leiddu 36-42 í hálfleik.
Carmen var svakaleg og komin með 21 stig hálfleik.
 
Keflavík byrjaði þriðja leikhluta á 6-0 kafla og kom sér í 12 stiga forystu, 36-48. Þegar Keflavík voru komnar 16 stigum yfir sá Andri Þór Kristinsson ekkert annað í stöðunni en að taka leikhlé. Eftir leikhléið fór Breiðablik að ganga aðeins betur. Þær fóru að skora, taka sóknarfráköst og þvinga Keflavík í tapaða bolta. Það dugði þó aðeins skammt og Keflavík voru komnar 24 stigum yfir er leikhlutanum var lokið, 44-68.
 
Það fjaraði út úr leiknum í fjórða leikhluta enda úrslitin orðin ráðin. Liðin skiptust á að skora og ekki er hægt að segja að um fagran varnaleik hafi verið um að ræða hjá liðunum til leiksloka.
 
 
 
Mynd/ Birna Valgarðsdóttir sýndi Jenny Boucek að hún er alveg nákvæmlega sami leikmaður nú og þegar Boucek lék hér á landi, en hún var með 13 stig og 5 fráköst í kvöld, það sama og hún var með að meðaltali tímabilið 1997-98