„Þetta var ekki fallegt og við fengum á okkur fleiri stig en við kærum okkur um,“ sagði Justin Shouse í samtali við Karfan.is eftir sigur á Snæfell í Domino´s deild karla í kvöld. Justin fór mikinn í liði Garðbæinga með 34 stig, 6 stoðsendingar og 6 stolna bolta.
 
 
„Þegar þú lítur á stöðuna í deildinni er þetta gríðarlega mikilvægur sigur og við höfum staðið okkur vel í að verja heimavöllinn í vetur og það hélt áfram í kvöld sem er afar ánægjulegt,“ sagði Justin sem komið hefur mikið við í sögu beggja liða sem mættust í Ásgarði í kvöld. Sérstök tilfinning að leika gegn gamla klúbbnum sínum Snæfell?
 
„Já þetta eru alltaf sérstakir leikir en ég vil trúa því að þannig eru allir í húsinu þegar liðin mætast mínir stuðningsmenn,“ sagði Justin sposkur. „Þau úr Hólminum létu mig samt heyra það smá í kvöld eftir eina villuna mína en já það er alltaf smá extra eldsneyti á bensíntanknum hjá manni þegar maður spilar gegn gamla klúbbnum sínum en það er allt saman gott og blessað og maður vill gefa stuðningsmönnunum góðan leik og gefa allt í þetta.“
 
En hvernig metur þú innkomu nýja mannsins, Jeremy Atkinson, og áhrifin af brotthvarfi Frye á Stjörnuliðið?
 
„Við sáum góða spretti í kvöld en að missa góðan atvinnumann og góðan vin í Jarrid Frye er alltaf erfitt. Meiðsli leikmanna eins og Jóns og Sæmundar gera það að verkum að klúbbar þurfa jafnvel að gera breytingar og vonandi verður þetta breyting sem færir okkur nær í titilbaráttunni. Jeremy hefur staðið sig vel þessa viku sem hann hefur verið á landinu, boltahreyfing liðsins er góð og hann sjálfur sýnt framfarir svo við vonum bara að þetta haldi áfram þegar við mætum í Borgarnes.“
  
Mynd/ nonni@karfan.is – Þetta er kallað „The Justin Shouse Special“ – ekki oft sem þetta klikkar.