Stjörnumenn fengu piltana frá Sunny-Kef í heimsókn í 13. umferð Dominos-deildarinnar. Stjarnan þurfti að sætta sig við tap á Króknum í síðasta leik á meðan Keflvíkingar mörðu sigur á Sköllum í átakanlega vondum körfuknattleik.
 
 
Damon var mættur í búning í Ásgarði og Usher e.t.v. búinn að hrista af sér byrjendahrollinn enda byrjuðu gestirnir vel. Usher og Valur voru mest áberandi og héldu gestunum í nokkurra stiga forystu framan af. Allt annað að sjá til liðsins frá síðasta leik. Vörn heimamanna hertist hins vegar er á leið og með þristum frá Gústa og Frye höfðu þeir snúið taflinu sér í vil, 27-19 eftir fyrsta fjórðung.
 
Keflvíkingar virtust ekki ætla að svara þessu strax í öðrum leikhluta. Stjarnan lokaði ágætlega á sóknarleik gestanna og Usher var kannski ekkert sérstaklega vandlátur í skotvalinu. En Siggi Ingimundar hefur auðvitað ráð undir rifi hverju og lét bresta á með svæðisvörn. Hún byrjaði mjög vel og alveg merkilegt hvað það varnartilbrigði getur breytt miklu. Gunni gamli refur setti góðan stemmningsþrist í kjölfarið og hraðaupphlaup eftir stolinn bolta svæðisvarnarinnar galopnaði leikinn á ný. Fjögurra stiga leikur í hálfleik, 46-42.
 
Drengirnir frá Kef-City héldu áfram á sömu braut eftir hléið og komu sér yfir 50-51. Þá tók Meistari Shouse til sinna ráða og byrjaði að raða opnum skotum ofan í körfuna en um það snýst jú víst körfubolti. Það hafði gengið brösulega hjá Stjörnumönnum gegn svæðinu en eins og allir vita á alltaf að vera hægt að búa til opið skot gegn slíkri vörn. Ekki bætti úr skák fyrir gestina að Dagur Kár tók við og raðaði niður körfum gegn bræðrum sínum úr Bítlabænum. Heimamenn aftur komnir með tökin á leiknum, með 73-62 forystu eftir þrjá leikhluta. Dagur fór hamförum í leikhlutanum og smellti niður 11 stigum.
 
Gestirnir héldu áfram í sinni svæðisvörn með kannski svolítið misjöfnum árangri. Maður á mann-vörn heimamanna öllu stabílli og Keflvíkingar þurftu að hafa mikið fyrir hverju stigi. Það var helst Usher sem hélt þeim inni í leiknum og um miðjan leikhlutann skildu ekki nema 5 stig liðin að, 85-80. Þá buðu liðin upp á mikla og skemmtilega þriggjastiga-veislu! Þar höfðu Dagur og Meistari Shouse 3-2 sigur gegn Þresti og Usher og staðan 94-86 og 2 mínútur eftir. Hálfri mínútu síðar bauð Shouse upp á einstaklega glæsilegt gegnumbrot – ekta Shouse-snúnings gegnumbrot sem enginn verður þreyttur á að berja augum! Átta stiga munur, aðeins 1:30 eftir og sú feita farin að hita upp raddböndin. Gestirnir reyndu auðvitað sitt besta en vonin veik – nokkuð öruggur Stjörnusigur að lokum, 99-92.
 
Shouse hefur farið vaxandi í vetur og átti skínandi leik í kvöld. Dagur Kár var einnig mjög góður og ekki síst þegar mest á reið. Þeir skoruðu báðir 23 stig og gerðu vel í öðrum þáttum leiksins. Marvin skilaði einnig fínum tölum. Frye hefur hins vegar verið svolítið ólíkur sjálfum sér í vetur og sennilega á Stjarnan u.þ.b. helminginn af honum inni!
 
Keflvíkingar byrjuðu vel í kvöld og 9 leikmenn skiluðu stigum. Þegar uppi var staðið var þó Usher nánast sá eini sem hélt dampi og endaði með heil 39 stig og 7 fráköst. Þröstur Leó skilaði reyndar 20 stigum en aðrir miklu minna. Lágvaxið lið gestanna tapaði frákastabaráttunni frekar illa í kvöld, 46-31, og það kann aldrei góðri lukku að stýra í hinni fögru íþrótt.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson