Unicaja Malaga tapaði fyrir Barcelona í spænsku deildinni í dag, 114-110 í æsispennandi framlengdum leik. Barcelona hafði yfirhöndina í hálfleik 52-45, en magnaður þriðji leikhluti (27-33) Malaga liðsins kom þeim aftur inn í leikinn. 
 
Þegar um 3 sekúndur voru eftir af leiknum í stöðunni 96-99 fyrir Unicaja Malaga, tókst Alejandro Abrines leikmanni Barcelona að setja niður ótrúlegt þriggja stiga skot, langt fyrir utan línuna með Jón Arnór og annan varnarmann í sér. 
 
Barcelona hafði yfirhöndina í framlengingunni og sigraði leikinn 114-110. Malaga heldur þó enn efsta sætinu í deildinni en Barcelona er í fimmta. 
 
Jón Arnór skoraði 9 stig og gaf 3 stoðsendingar á 24 mínútum.
 
“Þetta skot var eitt það svakalegasta sem ég hef séð,” sagði Jón í samtali við Karfan.is að leik loknum. “Vorum með unninn leik og ótrúlegt að hann hafi farið ofan í. Hann kallaði klárlega ekki spjaldið!” Jón sagðist hafa brotið á honum þegar hann setti boltann í gólfið en ekkert hafi verið dæmt. “Við ætluðum að senda þá á línuna.”
 
“Gaman samt að spila svona leiki. Var í leiksstjórnandanum allan tímann og gaman að fá það challenge.”