Jón Arnór Stefánsson gaf sér tíma nú í morgunsárið í smá spjall við okkur hjá Karfan.is  Jón var eins og flestum er kunnugt valinn íþróttamaður ársins í gærkvöldi og var kosningin nokkuð yfirgnæfandi frá samtökum fréttamanna.  En hvenær fékk hann að vita af þessu og hver voru hans fyrstu viðbrögð?
 
“Mín fyrstu viðbrögð voru bara að ég var virkilega hissa í raun. Bjóst alls ekki við þessu en að sjálfsögðu vonaði að maður myndi nú einhverntímann vinna þetta.  Það var haft samband ca 10 dögum fyrir jól og mér var tilkynnt þetta. Mér fannst soldið skrítið að ég var með mikið af “missed calls” þarna um þetta leyti og var ekki að átta mig á því. En svo komu þau hérna fréttastjórinn á RÚV og við tókum þetta viðtal sem var sýnt í gær á þorláksmessu.
 
Horfðu á RÚV í beinni frá Spáni
Við sátum hérna fjölskyldan öll þó svo að við höfðum ætlað okkur að vera bara tvö þar sem þau litlu áttu að vera sofnuð. En já ég horfði á þetta og sá mömmu taka dansinn á sviðinu.  Ég áætla að þetta hafi bara verið gleðispor hjá henni, að litli strákurinn hennar hafi unnið þetta. En svona er bara mamma mín, alveg hreint yndisleg kona.
 
Hefði valið Gylfa
Það er erfitt að segja  hvort þetta hafi verið kominn tími á þetta hjá mér því það hafa verið svo flottir íþróttamenn um þetta, Eiður og Óli bróðir eins og ég hef áður nefnt og aðrir handboltakallar þarna. Ég neita því ekki að auðvitað hefur mig langað að vera ofar í kjörinu áður en svona er þetta bara. Ætli þeir hafi ekki látið gamla fá þetta núna því Gylfi á náttúrulega mörg ár eftir og hefur nægan tíma til að hlaða þessu inn hjá sér (og hlær). Ætli ég hefði ekki valið Gylfa.  Hann er að spila á mjög háu “leveli” þarna á Englandi og gengi landsliðsins hefur verið mjög gott. Hann er frábær íþróttamaður og ég hefði valið hann þar sem ég hefði náttúrulega aldrei valið sjálfan mig.
 
Konan mín breytir öllu
Konan mín hefur náttúrulega breytt öllu hjá mér og gert þetta miklu betra allt. Það var orðið virkilega leiðinlegt að vera alltaf einn úti í þessu. Þau sjö ár sem við höfum verið saman hefur hún staðið með mér í gegnum súrt og sætt. Hún hefur gefið mér tvö yndisleg börn og sér um þau af mikilli snilld.  Hún hefur fórnað ýmsu fyrir þetta og ég er óendanlega þakklátur að okkar vegir hafi leiðst saman. Mamma og Pabbi kenndu mér vel á lífið sem ég hef svo nýtt mér í körfuboltann og sú kennsla er gullsígildi.    Svo vil ég bæta við að Benni (Benedikt Guðmundsson) á líka stóran þátt í þessu hjá mér.  Allur sá tími sem hann fórnaði með mér á sínum tíma er mér ómetanlegur. Og einnig ber að nefna Inga (Ingi Þór Steinþórsson) og Frikka (Friðrik Ingi Rúnarsson) sem hafa reynst mér afar góðir í gegnum minn feril. 
 
Við finnum stað
Við höfum fengið spurningar frá vinum hvar gripurinn eigi svo að vera staðsettur í íbúðinni hjá okkur heima. Ég og konan mín erum svona að fara yfir það núna þessa dagana að finna stað fyrir þennan glæsilega bikar heima fyrir.  Við finnum einhvern góðan stað en á meðan þá geymir mamma hann fyrir mig.