Craig Pedersen, þjálfari A-landsliðs karla í körfuknattleik, staðfesti það við mbl.is í dag að Jakob Örn Sigurðarson myndi snúa aftur í liðið næsta sumar eftir að hafa ekki gefið kost á sér í undankeppni EM í ágúst í fyrra, þegar liðið vann sér sæti í lokakeppninni í fyrsta sinn. Mbl.is greinir frá.
„Það er erfitt að segja til um hvaða breytingar verða á hópnum frá því í undankeppninni en einn leikmaður mun þó koma inn í hópinn sem var ekki með síðasta sumar. Það er Jakob Örn Sigurðarson. Hann var mjög mikilvægur leikmaður í liðinu í mörg ár og var lykilmaður sumarið 2013 þegar Ísland vann Rúmeníu í tveimur leikjum og kom sér þannig upp um styrkleikaflokk,“ sagði Pedersen við mbl.is.