KKÍ hefur gengið frá samningum við Ívar Ásgrímsson um að hann verði áfram þjálfari kvennalandsliðsins næstu tvö árin og verður Margrét Sturlaugsdóttir aðstoðarþjálfari liðsins.
Ívar og Margrét stýrðu liðinu á síðasta ári á Evrópukeppni Smáþjóða á vegum FIBA Europe og í tveim æfingaleikjum gegn danska landsliðinu í undirbúningnum fyrir það mót.
Annar aðstoðarþjálfari verður einnig ráðinn á næstu dögum og mun sá þjálfari einnig þjálfa U20 lið kvenna. www.kki.is greinir frá.
 
 
 
Það er margt framundan á þessu ári hjá kvennaliðinu en það kemur saman í maí til undirbúnings fyrir Smáþjóðaleikarnna sem fara fram á Íslandi dagana 1.-6. júní í Laugardalshöllinni.
 
Í kjölfarið tekur landsliðið þátt í æfingamóti í Danmörku í júlí sem er undirbúningur fyrir undankeppni Evrópukeppninnar 2017 (EuroBasket women 2017) sem hefst svo í haust.
 
Þá verður í fyrsta sinn keppt í undankeppni EM á meðan keppnistímabilið er í gangi í Evrópu en FIBA Europe hefur sett upp nokkra ákveðna leikdaga eða „glugga“.
 
Í vor veður dregið í riðla fyrir þá keppni og þá kemur í ljós hverjir andstæðingar okkar verða í undankeppninni.
 
 
Fyrsti leikglugginn verður í nóvember og verða þá leiknir tveir leikir, einn heima og einn úti.