Það hefur ekki farið framhjá þeim sem lesa Karfan.is reglulega að útrásin okkar í Bandaríkjunum er að blómstra. Við höfum útsendara í Suður-Karolínu, Texas, vöggu körfuboltans – New York borg og á mörgum öðrum stöðum. Það eru þó fjórir krakkar að standa sig framar öllum í þessum efnum þessa dagana.
 
Vefsíðan Basketball Reference heldur ekki bara utan um tölfræði NBA boltans heldur einnig háskólaboltans bandaríska. Þar kennir ýmissa grasa.
 
Basketball Reference flokkar einnig tölfræði eftir riðlum (e. conference) og þannig er hægt að sjá hvernig krakkarnir okkar standast samanburð við þá sem þau eru að spila við reglulega.
 
Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson spila með LIU Brooklyn háskólanum sem leikur í Northeastern Conference.
 
Samkvæmt BR er Elvar í 9. sæti í NEC riðlinum yfir spilaðar mínútur eða samtals 497. Hann er einnig í 8. sæti yfir mínútur spilaðar í leik með 33,1. Elvar er í 4. sæti riðilsins yfir heildarstoðsendingar eða 65 alls og einnig í 4. sæti yfir stoðsendingar í leik með 4,3. Stoðsendingarhlutfall (AST%) Elvars er heldur ekki af verri endanum en 28,2% af körfum LIU koma frá stoðsendingum Elvars á meðan hann er inni á vellinum. Elvar er einnig þjófóttur með meiru en hann stelur að meðaltali 1,2 bolta í leik sem er það 13. besta í riðlinum. Elvar þó í 8. sæti yfir tapaða bolta í riðlinum með 42 slíka en Assist/Turnover hlutfallið hans er mjög gott samt sem áður eða 1,55 sem er það 7. besta í riðlinum. Elvar er einnig með 13. bestu vítanýtingu riðilsins með 72,2% (m.v. 2 víti skoruð í leik).
 
Tölfræði Martins er heldur ekki af verri endanum. Martin er 24. í riðlinum í stigum í leik með 9,5 stig.  Hann er 8. stoðsendingahæsti leikmaður riðilsins með 3,33 stoðsendingar í leik eða 50 alls. Stoðsendingahlutfall Martins er mjög gott einnig eða 24,0% sem er 8. besta í riðlinum og Assist/Turnover hlutfallið 1,39 eða það 8. besta í riðlinum.  Martin er framúrskarandi vítaskytta með 85,7% vítanýtingu sem er það næstbesta í riðlinum. Hann er í 16. sæti yfir leiknar mínutur með 30,9 í leik og 464 alls.
 
Einnig er hægt er að sjá tölfræði NEC riðilsins hérna.
 
Kristófer Acox spilar með Furman University í Suður-Karolínu en það lið leikur í Southern Conference riðlinum.  Kristófer er 7. frákastahæsti leikmaður riðilsins með 6,3 fráköst í leik eða 88 alls. Hann er næstbesti sóknarfrákastari riðilsins með 2,9 í leik og sá 14. í riðlinum í varnarfráköstum með 3,4 í leik.  Kristófer er einnig með 4. bestu skotnýtingu innan þriggja stiga línunnar með 58,3%. Frákastahlutföll Kristófers eru heldur ekki af verri endanum en hann tekur 13,6% af öllum sóknarfráköstum sem í boði eru á meðan hann er inni á vellinum.  Varnarfrákastahlutfallið er 16,5% það 10. besta í riðlinum og heildarfrákastahlutfallið er 15,0% það 3. besta í riðlinum. 
 
 
Hildur Björg Kjartansdóttir spilar með University of Texas, Pan American sem leikur í Western Athletic Conference riðlinum.  Hildur er í 20. sæti yfir alla í WAC riðlinum í fráköstum með 4,3 í leik. Hún er einnig framúrskarandi þriggja stiga skytta með 42,2% nýtingu sem er 3. besta í öllum riðlinum. Hildur er heldur betur að færa þjálfara UTPA nákvæmlega það sem hann var að sækjast eftir þegar hann sótti hana hingað til Íslands eða stretch fjarka sem getur skotið þristum og tekið fráköst.
 
 
Hafið í huga þegar þið lesið þetta yfir að Martin, Elvar og Hildur eru á sínu fyrsta ári í efstu deild háskólaboltans. Kristófer er á sínu öðru ári en það skal tekið fram að hann missti úr bróðurpart síðasta tímabils vegna meiðsla.  
 
Framtíðin er björt.