Það var ljóst að leikurinn sem fram fór í Hertz hellinum í kvöld myndi vega þungt í fallbaráttu þessarra þriggja liða sem á botninum sitja; ÍR, Fjölni og Skallagrím. 
 
ÍR hóf leikinn af mikilli ákefð, skoruðu tvær fyrstu körfurnar en fengu svo 7 stig í röð í bakið að því loknu. Hvorugt liðið ætlaði að gefa þetta eftir, eins og fyrsti leikhluti var að spilast. Matthías Orri skoraði magnaða körfu í lok fyrsta hluta með sniðskoti yfir Jonathan Mitchell til að koma ÍR 1 stigi yfir í þá mund sem flautan gall og staðan 22-21 fyrir ÍR.
 
Annar hluti var algerlega eign ÍR þar sem heimamenn settu af stað stórsókn sem Fjölnir hafði engin svör við. Sjálfir voru þeir flatir í eigin sóknarleik og misstu ÍR-inga 16 stigum á undan sér 52-36 þegar flautað var til hálfleiks.
 
Fram að þessu hefur ÍR átt bágt með að hefja leikina en mætir svo til leiks eftir 1. eða 2. hluta og berjast fyrir lífi sínu til loka leiks. Annað var uppi á tengingnum í kvöld þar sem ÍR var komið með væna stöðu í hálfleik, 16 stigum yfir og andstæðingurinn máttlaus í aðgerðum sínum. 
 
Í stað þess að hamra járnið á meðan það var heitt létu þeir deigan síga og hleyptu gestunum aftur inn í leikinn. Fjölnir hafði náð að saxa forskot ÍR niður í 9 stig, 69-60 þegar 4. og síðasti hluti hófst.
 
Fjölnir sótti á í 4. og ÍR reyndi að halda þeim frá en illa gekk. Fjölnir náði að minnka forskot heimamanna niður í 3 stig þegar um mínúta var eftir af leiknum og ljóst að enn einn naglbíturinn blasti við áhorfendum í Hertz hellinum. 
 
Hver sókn skipti öllu máli fyrir bæði lið en Trey Hampton fór langt með að loka leiknum með stökkskoti á vinstri vængnum þegar 52 sekúndur voru eftir af leiknum.  Matthías Orri braut klaufalega á Róberti Sigurðssyni í þriggja stiga skoti þegar 13 sekúndur voru eftir en það kom ekki að sök þó Róbert hafi sett niður öll vítin.
 
ÍR innsiglaði gríðarlega mikilvægan sigur á Fjölni 87-82 og lengdi þar með í snörunni fyrir sig í fallbaráttunni, en ÍR, Fjölnir og Skallagrímur er jöfn að stigum í þremur neðstu sætunum. 
 
Hart verður barist á botninum núna á síðasta fjórðungi deildarinnar. Fjölnir á Skallagrím næst í Dalhúsum og þar er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið. ÍR á svo eftir Skallagrím í byrjun mars í Hellinum.
 
Trey Hampton var drjúgur fyrir ÍR með 31 stig og 12 fráköst. Matthías Orri átti einnig frábæran leik með 25 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Fjölni var Jonathan Mitchell með 38 stig og 11 fráköst og Róbert Sigurðsson spilaði virkilega vel með 18 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. 
 
 
 
 
 
Mynd: Trey Hampton átti stórleik fyrir ÍR-inga í gærkvöldi. JBÓ