„Við hleyptum þeim allt of hátt í fyrri hálfleik, þeir skora þá á okkur 48 stig og við vorum að leyfa Justin að leika allt of lausum hala. Við gerðum vel á þá í seinni hálfleik en þeir fengu vítaskot hvað eftir annað í fjórða leikhluta og þar er leikurinn,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells við Karfan.is í kvöld eftir tap Hólmara í Ásgarði gegn Stjörnunni. Ingi Þór var allt annað en sáttur í leikslok en lokatölur í Ásgarði voru 97-88 Stjörnuna í vil.
 
 
„Stjarnan gerði mjög vel að ýta bara í magann á Chris hérna í seinni hálfleik og því miður horfðu dómararnir bara á boltann eins og áhorfendur og það gerðu þeir allir þrír. Mér fannst þeir missa allt of mikið þarna í fjórða leikhluta og í svona jöfnum leik þá skiptir hver einasti dómur máli. Hvort þú sleppir skrefi eða villu úti á velli, þetta skiptir allt máli og boltinn féll Stjörnumeginn í kvöld sem fékk þessa dóma.
Það veit enginn hvaða lína er í dómgæslunni, stundum máttu koma við manninn undir körfunni og stundum ekki og mér hefur fundist almennt bara vera línuleysi í dómgæslunni í vetur og þetta var skelfilegt hérna í kvöld. Sem dæmi þá var þetta engin venjuleg villa þegar brotið er á Óla Ragnari, hann var vankaður eftir þetta og aðeins dæmd venjuleg villa. Fullt af hlutum sem duttu ekki með okkur og ég er ósáttur við það en við áttum að sjálfsögðu að gera betur sjálfir. Við vorum að gera vel til að koma okkur í stöðu til að vinna leikinn en þetta datt ekki.“
 
Framundan er hörku törn hjá Snæfell þar sem hver stórleikurinn rekur hvern annan, næsti slagur gegn Þór Þorlákshöfn, svo KR og þar næst eru Njarðvíkingar.
 
„Hver einasti leikur er bara úrslitaleikur, með sigri hefðum við þessvegna geta verið í 3. sæti og deildin er bara þannig að sjö lið eru að berjast um sex sæti, ekkert þeirra vill verða í níunda sæti og við erum eitt þeirra liða. VIð eigum mjög erfitt prógramm framundan og hver leikur er bara eins og þeir segja „do or die.“
Siggi var ekki eins sterkur í kvöld og hann er búinn að vera enda lítið sem ekkert æft með okkur síðustu tvær vikur vegna meiðsla og Chris sást ekki í seinni hálfleik, frábær í fyrri en það vantaði bara nokkur atriði í kvöld til að hlutirnir dyttu okkar megin.“