Í kvöld mættust lið Hattar og FSu á Egilsstöðum í toppleik 1.deildar karla.  Fyrir leik var vitað að FSu þurftu að sigra til að jafna Hött á toppnum á stigum en með sigri heimamanna var ljóst að staða þeirra yrði orðin afar vænleg fyrir lokasprettinn.  Það voru Hattarmenn sem kýldu á sigur 100:86 að þessu sinni og trjóna á toppi 1.deildar með fjögurrastiga forystu.  
 Leikurinn var jafn á flestum tölum megnið af leiknum og það var ekki fyrr en eftir rúmar 25 mínútur sem að skilja fór á milli liðanna. Og það voru heimamenn sem fór að keyra sig upp og á stuttum tíma breyttu þeir stöðunni úr 54:53 í 70:55.  Þegar þarna var komið við sögu þá voru rétt tæpar 3 mínútur eftir af þriðja leikhluta.  Eftir þennan kafla heimamanna komust gestirnir aldrei nær og Hattarmenn með sterkan heimasigur í toppslagnum. 
 
Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar var að vonum gríðarlega sáttur þegar Karfan.is heyrði í honum eftir leik. “Já við erum mjög sáttir með kvöldið. Varnarleikur okkar í þriðja leikhluta skilar þessum sigri í land hjá okkur. Við vorum í kjölfar þessarar varnar að fá auðveldar körfur. Svo spilum við vel í fjórða leikhluta og hleyptum þeim aldrei nálægt okkur. Tobin var náttúrulega frábær fyrir okkur, var að frákasta vel og skoraði svo líka þessi ósköp. Það er nú þannig að ef þú tvídekkar hann ekki þá skorar hann að vild. Þeir veðjuðu á þessa vörn í kvöld og hann nýtti sér það.  Við skoðuðum leik FSu fyrir leik líkt og við gerum alltaf þannig að við vorum vel undirbúnir.  Svo má minnast á Hrein Gunnarsson sem spilaði frábæra vörn á kanann hjá þeim.” sagði Viðar að leik loknum. 
 
Tobin Carberry fór hreinlega á kostum í liði Hattar og skoraði 50 stig fyrir Hött! Það mun þá gera akkúrat helming stiga þeirra að þessu sinni.  Hjá gestunum var það Ari Gylfason sem skoraði 34 stig. 
 
 
Mynd/Austurfrett.is