Fjölnismaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson hefur heldur betur hrisst af sér slenið úr síðasta leik með MBC. Hann setti 14 stig og gaf 5 stoðsendingar í naumum tapleik Úlfanna gegn Ratiopharma Ulm í gærkvöldi. Hörður spilaði einnig hörkuvörn, stal 3 boltum en tapaði aðeins 2 sjálfur á þeim 30 mínútum sem hann var inni á vellinum.
 
Úlfarnir spiluðu best í fyrri hálfleik en létu svo Ulm sleppa frá sér í seinni hálfleik, sem gestirnir sigruðu með 10 stiga mun. Leikurinn fór svo 82-86 fyrir Ulm liðinu og sjöunda tap MBC í röð staðreynd. 
 
Næsti leikur Úlfanna verður gegn MHP Riesen Ludwigsburg á útivelli. Ludwigsburg eru búnir að vinna síðustu 3 leiki og eru í 13 sæti deildarinnar. MBC situr í 10. sæti deildarinnar í dag.