„Ég er mjög spenntur, þetta er mitt fyrsta meistaraflokksstarf og í eðli sínu er það auðvitað mjög krefjandi. Kröfurnar eru alltaf miklar hjá frábærum klúbbi eins og KR og ég mun gera mitt allra besta til að uppfylla þær,“ sagði nýráðinn þjálfari kvennaliðs KR við Karfan.is í dag en sá heitir Hörður Unnsteinsson og tekur við starfanum af Finni Jónssyni sem á dögunum tók við stjórnartaumunum hjá Skallagrím í Borgarnesi.
 
 
„Stjórnin sýndi mér þetta mikla traust að kasta mér í djúpu laugina og ég er þeim gríðarlega þakklátur fyrir þetta tækifæri sem ég ætla mér að nýta. Ég er auðvitað ekki einn í þessu, ég fæ mikla aðstoð frá einum besta þjálfara landsins, Finni Frey. Ég gæti ekki óskað eftir betri manni mér við hlið í þessu fyrsta starfi mínu. Stelpurnar hafa einnig verið frábærar í gegnum þessi óvæntu þjálfaraskipti og munu halda áfram að leggja hart að sér í æfingum og leikjum. Þessi þjálfaraskipti breyta í raun engu í grunninn. Þær þurfa eftir sem áður að fara út á völlinn, 5 í einu og gera það sem þarf til að vinna leiki. Finnur Jóns var búinn að leggja góðan grunn með starfi sínu fyrir áramót sem við munum halda áfram að byggja á núna á síðari hluta tímabilsins.“
 
Hörður stýrir KR á eftir gegn Val í Vodafonehöllinni svo kappinn fær eldskírn sína sem aðalþjálfari á útivelli í leik gegn erkifjendum KR.