„Við erum bara að reyna að komast upp úr þessari holu sem við höfum grafið okkur,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson leikmaður MBC í þýsku úrvalsdeildinni en liðinu hefur ekki farnast vel upp á síðkastið og tapað síðustu níu deildarleikjum sínum í röð. Framundan er hörku leikur við Bonn um komandi helgi sem er í 6. sæti deildarinnar.
 
 
„Að mínu mati byrjaði þetta fyrir alvöru á móti Bonn, í fyrri leiknum en m.a. er keppnisfyrirkomulagið stórfurðulegt hérna í ár,“ sagði Hörður. Er Þjóðverjinn þá með allt lóðrétt niður um sig í skipulaginu? Er það ekki eitthvað sem maður á síður von á hjá Þjóðverjum?
 
„Við lékum t.d. við Alba Berlín 31. desember og svo aftur síðasta laugardag, við spiluðum líka við Ludwigsburg þann 27. desember og svo aftur fyrir tveimur vikum. Þetta eru reyndar tvö lið sem henta okkur virkilega illa, „mötchum“ þá engan veginn upp. Auðvitað hefur það svo bitið á sjálfstraustið í liðinu að tapa níu leikjum í röð en við reynum allt sem við getum til að láta þetta ekki hafa áhrif. Af þessum níu tapleikjum eru fimm þeirra virkilega jafnir og svo hinir á móti þessum tveimur liðum sem henta okkur engan veginn.“
 
Nú þegar Bonn er framundan, hvar þessi níu leikja þrautarganga hófst, er þá ekki tilvalið að skilja hana bara eftir hjá Bonn líka?
 
„Bonn er dæmi um topplið sem hentar okkur vel að spila á móti. Það verður virkilega gaman að spila gegn þeim og vonandi náum við að klára þennan leik til að létta aðeins á öllu batterýinu.“
 
MBC er um þessar mundir í 14. sæti úrvalsdeildarinnar í Þýskalandi en er það lið í deildinni sem um þessar mundir hefur tapað flestum leikjum í röð. Botnliðin og fyrrum Íslendingaliðin Eisbaren Bremerhaven og Crailsheim Merlins verma botn deildarinnar en gengið þeirra upp á síðkastið eru þó bara 5 og 6 tapleikir í röð.