Hörður Axel Vilhjálmsson og Úlfarnir töpuðu sínum sjötta leik í röð, nú gegn toppliði Bundesligunnar, Alba Berlin 82-56. Okkar maður var stigalaus í leiknum en gaf 2 stoðsendingar og tók 2 fráköst. 
 
“Við töpuðum í gær á móti besta liðinu í deildinni,” sagði Hörður í stuttu spjalli við Karfan.is. “Fyrir mér er það ekkert slæmt tap miðað við önnur sem við höfum tapað upp á síðkastið á móti liðum sem við eigum að vinna.” Hörður nefndi einnig að MBC hefðu tapað þremur leikjum í röð sem hefðu getað fallið báðum megin.
 
Aðspurður hvernig honum lítist á seinni hluta tímabilsins sagði Hörður að einhverju þyrfti að breyta. “Gengur ekki að við vinnum fimm leiki í röð og töpum svo strax sex leikjum í röð á eftir.” Þessi mál eru til athugunum hjá liðinu núna. “Við erum að reyna að finna lausn á þessu og vonandi finnum við hana bara sem fyrst.”
 
En er Hörður sáttur við sinn leik í vetur? “Ég er sjálfur búinn að vera mikið jójó í vetur. Var slakur í gær. Þarf að finna meiri stöðugleika sem og allt liðið í heild.”
 
MBC eru nú í 8. sæti deildarinnar og eiga næsta leik við Ratiopharm Ulm á laugardaginn. Ulm hafa unnið 7 af síðustu 10 leikjum sínum og sitja sem stendur í 5. sæti deildarinnar.
 
Mynd: Matthias Kuch