Allt bendir til þess að Högni Fjalarsson leiki ekki meira með KR á tímabilinu en hann fór úr axlarlið á æfingu í fyrradag. Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR staðfesti þetta við Karfan.is í dag.
 
 
„Högni lenti illa á öxlinni og fór úr lið. Sjúkraliðar kipptu honum í lið á staðnum. Hann er búinn í myndatöku og þetta kom eins vel út og hægt var miðað við meiðslin,“ sagði Finnur en Högni verður frá íþróttaiðkun í að minnsta kosti fjórar vikur.
 
„Þar sem þetta getur mögulega þróast í krónísk meiðsli er ekki skynsamlegt að taka óþarfa áhættu svo við sjáum til hvernig hann verður,“ sagði Finnur en tíminn leiðir það í ljós hvort Högni leiki meira með þetta tímabilið en hann er einnig gjaldgengur í drengja- og unglingaflokki og lék með U18 ára liði Íslands á NM og EM síðastliðið sumar.