Hópur iðkenda í hjólastólakörfubolta kemur saman öll mánudagskvöld í íþróttahúsi ÍFR að Hátúni. Nú í um það bil eitt og hálft ár hafa æfingarnar staðið yfir og eru þær skipaðar bæði iðkendum úr röðum fatlaðra og ófatlaðra. Við ræddum við Hákon Atla Bjarkason sem hefur verið einn af forsprökkum hjólastólakörfuboltans og hvatti hann alla til að mæta á æfingarnar og spreyta sig. Allir eru velkomnir en æfingar fara fram kl. 21 á mánudagskvöldum
 
 
Þess má geta að á sínum tíma var Ólafur Rafnsson heitinn, fyrrum formaður KKÍ, fyrrum forseti ÍSÍ sem og fyrrum forseti FIBA Europe, einn af forsprökkum hjólastólakörfuboltans á Íslandi en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og lagðist íþróttin af um allnokkra hríð en er nú komin aftur á kreik og verður forvitnilegt að sjá hvernig nýjum iðkendum mun vegna á þessari vegferð sinni. Karfan.is hvetur alla til þess að líta við á æfingarnar, jafnt fatlaða sem ófatlaða, og prófa en hægt verður að nálgast prufustóla á æfingunum í takmörkuðu upplagi.