Botnslagur Breiðabliks og Hamars í Dominosdeild kvenna fór fram í kvöld en með sigri gat Breiðablik komist upp fyrir Hamar í töflunni og sett enn meiri spennu í botnbaráttuna. Annað kom hins vegar upp á daginn þar sem Blikastúlkur létu gestina hreinlega valta yfir sig halda sér í 43 stigum sem er það lægsta sem Breiðablik hefur skorað í vetur. Öruggur 43-66 sigur Hamars kom þeim í mun þægilegri stöðu fyrir fallbaráttuna á komandi vikum.
 
 
Blikar skoruðu fyrsta stigið í leiknum en forystuna tóku Hamarsstúlkur strax á eftir og héldu henni. Blikum tókst þó að halda í við gestina allan fyrsta hluta en munurinn varð aldrei meira en 3 stig fyrstu 10 mínúturnar. 
 
Breiðablik skoraði aðeins 2 stig fyrst 5 mínúturnar í öðrum leikhluta en tímann nýttu Hamarsstúlkur til að ná 7 stiga forystu. Stigin komu í kippum hjá Blikum eftir þetta en sókn Hamars var stöðug og hélt Blikum í hæfilegri fjarlægð. Munurinn var þó aðeins 8 stig í hálfleik, 25-33 Hamri í vil og þetta var enn leikur.
 
Allt of langur þurrkur í sóknarleik Blika á fyrstu fjórum mínútum seinni hálfleiks fór hins vegar langt með að gera út um leikinn fyrir heimaliðið. Hreyfingin í sókninni var nánast engin hjá Blikum og þær biðu eftir kraftaverki frá Arielle. Vörnin var lítið skárri en þær gerðust oft sekar um að standa á hælunum. Á stuttum kafla í þriðja hluta sást þó votta fyrir fínum varnarleik hjá þeim þar sem þær héldu Hamri stigalausum í tvær mínútur. 
 
Hamar sem hafði hitt vel úr skotum sínum í leiknum og einnig fyrir utan þriggja stiga línuna, héldu uppteknum hætti við að negla niður þristum eftir að tekist hafði að brjóta niður varnartilburði heimamanna.
 
Blikar skoruðu svo ekki stig næstu fimm mínúturnar og gáfu þar með leikinn endanlega frá sér. 
 
Hamarsstúlkur áttu frábæran leik, bæði í vörn og sókn sem verður þeim gott veganesti inn í næsta leik sem verður erfiður gegn Haukum í Hveragerði. Breiðablik hins vegar þarf að fara að taka á honum stóra sínum til þess að forðast fall í lok tímabils.
 
Hjá Hamri var Sidney Moss atkvæðamest með 24 stig og 6 fráköst. Fast á hæla hennar kom Salbjörg Sævarsdóttir með frábæran leik eða 20 stig, 11 fráköst og 4 varin skot. Heiða Valdimarsdóttir var einnig drjúg fyrir gestina með 12 stig (2/4 í þristum) og 4 fráköst.
 
Fátt var um fína drætti hjá Blikum en þar báru af Arielle Wideman með 12 stig, 12 fráköst og 4 stolna bolta og einnig Berglind Ingvarsdóttir með 12 stig og 4 stoðsendingar.
 
Viðtöl við leikmenn og þjálfara eru í myndskeiðinu hér að neðan.
 
 
 
Mynd: Salbjörg Sævarsdóttir átti frábæran leik með Hamri í kvöld með 20 stig, 11 fráköst og 4 varin skot. (Axel Finnur)