Haukakonur mættu í Hveragerði með Hardy í leikbanni og ætluðu sér allt annað en tapa þriðja leiknum í röð en Hamarskonur sáu aukið tækifæri á sigri og gefa Hallgrími þjálfara góða afmælisgjöf.
 
 
Byrjunin var höktandi og lengi vel 2-2 þar til Haukakonur tóku frumkvæðið og leiddu 8-13 eftir fyrsta. Hittnin hjá heimastúlkum léleg en þær sóttu meira inn í teig í öðrum leikhluta og komust yfir 25-24 en tveir þristar Haukamegin kveikti aftur í þeim rauðklæddu sem spiluðu heilt yfir betur og leiddu í hálfleik 29-35.
 
Lítið breyttist staðan í þriðja leikhluta sem heimastúlkur unnu þó 22-21 og hittnin aðeins að skána. Hjá Haukum gékk sóknin fínt en fráköstin voru fleiri Hamarskvenna.
Fjórði leikhluti byrjaði með látum af hálfu gestanna með fyrstu þremur stigunum og átta stiga forskot komið. Hamar tók leikhlé í stöðunni 49-57 og rétt um 7 mínútur eftir. Ræða afmælisdrengsins var ekkert “afmælis” og heimastúlkur svöruðu kallinu með næstu 7 stigum frá Þórunni og vörnin að smella hjá Hamri. Sydnei skoraði næstu 2 og staðan 58-57 þegar sléttar 6 mínútur lifðu leiks. Næsta stig var Hamars eftir nokkra bið en þá kom loks eitt víti hjá Hamri ofaní og Sydnei bætti 2 frá vítalínunni, 62-57 og tvær og hálf eftir. 13 stig í röð heimastúlkur en Haukakonur héldu sér í leiknum með næstu 4 stigunum og 62-61 þegar um 1 mínúta var eftir. Hamar hélt áfram góðri vörn það sem eftir lifði leiks og Sóley setti 3 víti á lokakaflanum við mikinn fögnuð í Frystikistunni, 64-61.
 
Bestar heimakvenna þær Salbjörg, Þórunn og Sydnei en Sylvía Rún og Dagbjört hjá gestunum. Í lokin var svo tekið afmælissönginn hjá Hamarsstúlkum sem unnu þarna annan leikinn í röð og komnar þægilega frá botninum en Haukakonur söknuðu sárt Hardy og munar um minna.
 
Stig Hamar: Sydnei Moss 19/8 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 16, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 14/12 fráköst/8 varin skot, Heiða B. Valdimarsdóttir 7/8 fráköst, Sóley Guðgeirsdóttir 5/9 fráköst, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 2, Helga Vala Ingvarsdóttir 2, Jenný Harðardóttir 0, Jóna Sigríður Ólafsdóttir 0, Vilborg Óttarsdóttir 0, Erika Mjöll Jónsdóttir 0.
Stig Haukar Sylvía Rún Hálfdanardóttir 16/8 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 14/5 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 8/6 fráköst, Guðrún Ósk Ámundadóttir 7/13 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 6/5 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 5/4 fráköst/5 stoðsendingar, Dýrfinna Arnardóttir 3, Hanna Þráinsdóttir 2, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Rósa Björk Pétursdóttir 0, Þóra Kristín Jónsdóttir 0, Rakel Rós Ágústsdóttir 0.
 
Mynd úr safni/ Hveragerði Mynda-bær - Salbjörg var með myndarlega tvennu í Frystikistunni í kvöld.
Umfjöllun/ AT