Hafþór Ingi Gunnarsson er nýr aðstoðarþjálfari meistaraflokks Skallagríms í körfubolta og mun hann því standa vaktina með Finni Jónssyni á hliðarlínunni í vetur. Haffi tekur við keflinu af Brynjari Þór Þorsteinssyni sem var aðstoðarþjálfari Péturs Ingvarssonar fyrir áramót. Heimasíða Skallagríms greinir frá.
 
Á heimasíðu Borgnesinga segir einnig:
 
Haffi kemur með miklar reynslu inn í Skallagrímsliðið, enda á hann að baki langan feril sem leikmaður í úrvalsdeild. Hann er einn leikjahæsti maður meistaraflokks Skallagríms frá upphafi. Sem kunnugt er þurfti Haffi að leggja körfuboltaskónna á hilluna í desember 2013 þegar hann lék með Snæfelli eftir glímu við þrálát meiðsli í hné. Ferill Hafþórs í úrvalsdeild spannaði 16 ár og lék hann lengstum með Skallagrími, uppeldisfélagi sínu, en að auki nokkur tímabil með Snæfelli í Stykkishólmi. Hafþór hefur einnig komið að þjálfun yngri flokka í áranna rás og þjálfar hann í dag efnilegt lið drengja- og unglingaflokks Skallagríms.  
 
 
Mynd úr safni/ Frá Snæfellsdögum Hafþórs en hér er hann með Hólmurum í leik gegn Skallagrím.