„NEC riðillinn virðist vera frekar jafn riðill, liðin eru aðeins öðruvísi í riðlinum heldur en þau sem við kepptum á móti utan riðilsins. Meira af snöggum bakvörðum í NEC-riðlinum á meðan hin liðin utan hans sem við mættum voru öll frekar stór, hávaxin,“ sagði Gunnar Ólafsson leikmaður St. Francis Brooklyn háskólans í samtali við Karfan.is. Gunnar söðlaði um að loknu síðasta tímabili í Keflavík og stundar nú háskólanám í Bandaríkjunum hjá St. Francis Brooklyn sem fór vel af stað í Northeast Conference riðlinum (NEC) en tapaði sínum fyrsta leik í vikunni.
 
 
„Það eru náttúrulega margir leikir eftir en þetta er allt glænýtt fyrir manni svo maður er bara að læra og allt saman „on the go.“ Við erum með breiðan hóp og samkeppnin er mikil, reyndar hefur verið eitthvað af veikindum og meiðslum bæði hjá mér og fleirum í liðinu en þetta er engu að síður mesta samkeppni sem ég hef komist í og það gerir mann bara betri,“ sagði Gunnar sem hefur leikið 13,3 mínútur að meðaltali í 11 leikjum með St. Francis til þessa. Gunnar hefur verið með 2,2, stig að meðaltali í leik og 1,1 frákast. Í þrígang hefur hann verið í byrjunarliði St. Francis og ljóst að hann og kollegar hans Elvar Már og Martin sem leika með LIU skólanum, handan við götuna ef svo má að orði komast, hafi látið vel til sín taka á nýliðaárinu við skólana sína.
 
„Hér úti er þetta allt öðruvísi leikur en maður á að venjast í Domino´s deildinni. Mér finnst þetta mun agaðra og mun meira lagt upp úr varnarleiknum en ég hef t.d. bætt mig, að mér finnst, gríðarlega sem varnarmaður síðan ég kom hingað. Ég er búinn að vera inn og út úr byrjunarliðinu þetta tímabilið og það var mjög pirrandi að verða veikur í byrjun ársins þar sem ég hafði verið í byrjunarliðinu nokkra leiki í röð og kominn á ágætt ról,“ sagði Gunnar en nú styttist óðar í Íslendinga- og nágrannaslaginn þegar St. Francis Brooklyn og LIU Brooklyn mætast. Eigast þá við Gunnar og St. Francis gegn LIU og þeim Elvari og Martin. Sá leikur er á dagskránni þann 31. janúar næstkomandi.
 
„Já, það verður stuð að mæta þeim.“
 
Næsti leikur St. Francis Brooklyn er þann 16. janúar næstkomandi á útivelli gegn Robert Morris University en Robert Morris hefur eins og St. Francis Brooklyn unnið þrjá og tapað einum leik í NEC riðlinum til þessa svo um toppslag er að ræða.