Boðið var upp á jafnan og spennandi leik í Fjósinu í Borgarnesi í gærkvöld þegar Skallagrímsmenn fengu Grindvíkinga í heimsókn. Góð mæting var á leikinn og létu áhorfendur vel í sér heyra líkt og áður. Borgnesingar byrjuðu betur og komust strax 9:4 yfir. Gestirnir söxuðu hins vegar á forskotið með þá Rodney Alexander og leikstjórnandann öfluga Jón Axel Guðmundsson í broddi fylkingar og komust yfir 11:13 um miðjan leikhlutann. Liðin skiptust síðan á körfum fram undir lok leikhlutans. Skallagrímsmenn leiddu loks með einu stigi 25:24 eftir fyrsta leikhluta.