Laust fyrir kvöldmat í gærkvöldi tilkynnti Körfuknattleikssamband Ísland að forsala væri hafin á EuroBasket í Berlín 2015. Um var að ræða þá miða sem KKÍ fékk úthlutað frá mótshaldara og á besta stað í stúkunni. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ sagði viðbrögðin frábær og að sambandið væri að vinna í því að tryggja sér fleiri miða.
 
 
„Almenn miðasala hefst á netinu næstkomandi mánudag en það sem við settum í sölu í gær voru tveir mismunandi miðapakkar sem úthlutað er til aðildarlandanna í riðlinum. Um var að ræða miðapakka bara á Íslandsleikina og svo pakka með miðum á alla leiki riðilsins. Miðapakkinn bara á Íslandsleikina er uppseldur og við erum að vinna í því að fá fleiri. Það kemur vonandi betur í ljós í dag,“ sagði Hannes í samtali við Karfan.is í morgunsárið.
 
„Á hálfum sólarhring eru nánast allir miðar seldir sem við fengum og það er frábært. Ég vil samt nota tækifærið og minna á að þetta er sá miðafjöldi sem við sem keppum í riðlunum fengum úthlutað. Á mánudag verða miðar settir í almenna sölu á netinu en þeir verða flestir ekki á eins góðum stað og þeir sem fóru í sölu í gær. Einnig verða þeir miðar væntanlega mjög fljótir að fara þar sem gríðarleg eftirspurn er eftir miðum í okkar sterka riðli. Við munum svo flytja nánari tíðindi af miðamálum eins fljótt og þau berast.“