Fyrsti leikur KFÍ og Þórs frá Akureyri á nýju ári var í dag á Jakanum. það var sjáanlegt á leik beggja liða að jólin eru enn í mönnum og var þessi leikur skrautlegur.
Fyrsti leikhlutinn var vart byrjaður þegar KFÍ var komin með 4-0 forskot og tók það um 17 sekúndur að setja þau stig. Þórsarar voru enn í bílnum og voru með svona jello lappir, KFÍ komu sterkir til leiks með Pance í fluggír og náðu mest 14 stiga forkoti, 24-10. Þórsarar tóku þá skorpu og löguðu stöðuna og þegar leikhlutanum lauk var staðan 24-17.
 
Bæði lið voru hálf áttavillt í öðrum leikhluta og var sóknarleikur beggja liða tilviljunarkenndur og til að gera langa sögu stutta fór leikhlutinn 10-14 fyrir Þór og staðan í hálfleik var 34-31 og greinilegt að Biggi þjálfari vestandrengja og Elías þjálfari Þórs þurftu að nota raddböndinn ansi hraustlega í tepásunni.
 
Það varð lífsmark merkjanlegt hjá báðum liðum í þriðja leikhluta og svona jójó leikur varð staðreynd, en lítið var um kerfi. Þetta varð samt skásti leikhlutinn og lauk honum 20-20 og byrjaði sá fjórði 54-51.
  
Fjórði leikhlutinn var áframhald á mikilli baráttu beggja liða sem verður ekki tekið af þeim, en Þórsarar nýttu færin sín betur og tóku leikinn í sínar hendur eftir mikið jafnræði og silgdu þessum fyrsta sigri sínum í 1.deild í vetur í örugga höfn á Ísafirði, lokatölur 71-77.
 
Það er ekki margt gott hægt að segja um þennan leik. Það voru ekki mikil gæði sem aðilar buðu upp á. Mikið flautað og leikleysi beggja liða mikið. það skrifast eflaust á langt hlé fyrir og um jól en fínt að liðin séu komin yfir fyrsta leik.
 
Þórsarar voru duglegri í dag og var mikil stemning hjá þeim öllum þegar á þurfti að halda, en að sama skapi var mikið um byrjendamistök hjá KFÍ og pirringur. Það er ekki mikið annað hægt að skirfa um þennan leik og verður gaman að sjá hvernig liðin koma til leiks á morgun.
  
Frisco var duglegur hjá Þór og endaði með 25 stig,16 fráköst og 7 stoðsendingar en þeir Elías, Vic og Einar voru honum ekki langt að baki og voru flottir. Reyndar var allt Þórsliðið flott þegar á reyndi og eiga hrós skilið fyrir mikla baráttu.
 
Pance byrjaði vel, var duglegur og var fljótt kominn á annan tug stiga en varð þreyttur þegar leið á. Nebo skilaði ágætisleik en hékk of mikið á boltanum á tímum. Biggarnir tveir voru fínir en geta gert mun betur og aðrir verða að koma tilbúnari til leiks á morgun. ,,Betra er að duga en ekki”
 
Dómarar leiksins voru mistækir í dag en það bitnaði jafnt á báðum liðum. Mættu samt fylgja línunni frægu..