FSu og ÍA áttust við í 1. deild karla í kvöld. Fyrirfram hefði mátt búast við hörkuleik, Skagamenn nýlega búnir að vinna Hamar og FSu að tapa tveimur fyrstu leikjunum á nýju ári. Og þegar liðin áttust við á Akranesi í haust varð úr hörkuleikur þar sem FSu náði fyrst að slíta sig frá og tryggja sigurinn á síðustu mínútunum. En það var nú eitthvað annað. Gestirnir virtust nú staðráðnir í því fyrir leik að þetta yrði árangurslaus heimsókn og vonleysið lak einhvernveginn af öllu liðinu frá upphafi til loka. Heimamenn þurftu ekki að sýna sparihliðarnar til að vinna með 43 stiga mun, 102-59.
 
 
FSu tók frumkvæðið strax í upphafi og allt stefndi í stórburst. Í öðrum hluta var munurinn orðinn 20 stig en þá tók við kæruleysi hjá heimastrákum og ÍA klóraði í bakkann, minnkaði niður í 12 stig, 45-33, en í hálfleik var staðan 49-33. Í seinni hálfleik voru ekki liðnar nema fáar mínútur áður en aftur munaði 20 stigum og svo jókst munurinn jafnt og þétt, eftir 30 mín. stóð 76-42 og úrslitin löngu ráðin.
 
Allir leikmenn FSu spiluðu meira en 10 mínútur og komust „minni spámenn“ allir vel frá sínu. Þetta var einstefna eins og tölfræðiskýrslan sýnir, fráköstin 61-36, framlag 129-48 o.s.frv. Það voru vonbrigði að Skagamenn skyldu mæta svo andlausir. Þó mikið muni um Fannar Frey var ekki ástæða til að leggja strax árar í bát þó hann vantaði. Það var aðeins Zachary Warren sem gerði sínar vanalegu rósir, 32 stig og fína nýtingu, en fátt um fína drætti í öðrum tölfræðiþáttum. Áskell komst einn annar yfir 10 stigin og Þorleifur Baldvinsson var sá eini sem lét að sér kveða í fráköstum (9). Vonandi rífa Skagamenn sig upp fyrir næsta leik, staða þeirra í baráttunni um sæti í úrslitakeppni er vænleg, ef þeir snúa strax við blaðinu.
 
FSu liðið verður ekki dæmt af þessum leik. Ungu strákarnir vildu sýna sig og spiluðu af ákefð. Fraser hirti 9 fráköst á 10 mínútum, Svavar Ingi og Maciej hrifsuðu báðir 11 og Elli 8, þar af 6 sóknarfráköst. Allir nema einn settu stig á töfluna og sá sem það gerði ekki, Tóti Friðriks, spilaði flotta vörn á Warren í seinni hálfleik. Collin skoraði 28 stig, Elli 18, Ari 15 (5/8 þristum), Maciej 10, Geir Elías 9, Birkir 8, Svavar 5, Hlynur 5 (7 stoðsendingar) og Fraser Malcolm 4 stig.
 
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson