Stjórn Körfuknattleiksdeildar Skallagríms og Finnur Jónsson hafa komist að samkomulagi um að Finnur komi aftur til starfa hjá Skallagrími og nú sem aðalþjálfari meistaraflokks karla. Stjórnin væntir góðs af samstarfi við Finn á nýjum vettvangi. Þetta kemur fram á vefsíðu Skallagríms. Finnur segir því skilið við kvennalið KR.
 
 
Stjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms segir jafnframt á heimasíðu sinni:
Finnur hefur þjálfað úrvalsdeildarlið KR í Dominos deild kvenna í vetur en hann hættir þjálfun liðsins nú þegar hann tekur við Skallagrími. Hann var áður aðstoðarþjálfari meistaraflokks Skallagríms og yfirþjálfari yngri flokka félagsins. Einnig þjálfaði Finnur meistaraflokk kvenna hjá Skallagrími í nokkur ár. Þá hefur hann komið að þjálfun yngri landsliða Íslands í körfubolta. Áður var Finnur leikmaður meistaraflokks Skallagríms.
 
Karfan.is ræddi við Finn áðan sem þakkaði KR frábæran tíma:
„Þetta gerðist allt mjög hratt en ég þakka KR fyrir frábæran tíma. Þetta var lærdómsríkt og frábært vinnuumhverfi. Stjórn félagsins og Finnur Freyr Stefánsson hafa hjálpað mér mjög mikið og það er erfitt að skilja við KR en virkilega góð áskorun að liðsinna Skallagrím að gera betur og mig hlakkar mikið til.“